Yfirvöld í Austur-Kongó tilkynntu í dag að ebóla hafi greinst að nýju í landinu aðeins þremur mánuðum eftir að þau tilkynntu að fyrri ebólufaraldri væri lokið.
Kona búsett í austurhluta landsins, þar sem lífskjör í landinu eru hvað verst, lést í liðinni viku. Hún var eiginkona manns sem hafði áður náð sér af ebólu. Konan greindist 1. febrúar og lést tveimur dögum síðar.
Segja má að ebólufaraldrar séu tíðir í Afríku en þar hefur veiran greinst í mönnum með reglulegu millibili síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Oftast er hægt að telja dauðsföll í tugum en einstaka sinnum skipta þau þúsundum.
Á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) kemur fram að ebólufaraldur í Austur-Kongó geisi enn og hafi gert síðan í fyrra. Annar ebólufaraldur er skráður frá árinu 2018-2020 og segir að 3.481 einstaklingur hafi smitast og þar af 2.299 látist, eða 66%.
Stærsti ebólufaraldur frá upphafi varð árið 2014 í vesturhluta Afríku. Þá létust flestir í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu eða um 28 þúsund manns. Áður en þeim faraldri lauk breiddist hann til Bretlands, Spánar, Ítalíu og Bandaríkjanna þar sem einn lést.