Ebóla greinist á ný í Afríku

Heilbrigðisstarfsmaður í sóttvarnabúðum í Austur-Kongó árið 2017.
Heilbrigðisstarfsmaður í sóttvarnabúðum í Austur-Kongó árið 2017. AFP

Yfirvöld í Austur-Kongó tilkynntu í dag að ebóla hafi greinst að nýju í landinu aðeins þremur mánuðum eftir að þau tilkynntu að fyrri ebólufaraldri væri lokið.

Kona búsett í austurhluta landsins, þar sem lífskjör í landinu eru hvað verst, lést í liðinni viku. Hún var eiginkona manns sem hafði áður náð sér af ebólu. Konan greindist 1. febrúar og lést tveimur dögum síðar.

Segja má að ebólufaraldrar séu tíðir í Afríku en þar hefur veiran greinst í mönnum með reglulegu millibili síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Oftast er hægt að telja dauðsföll í tugum en einstaka sinnum skipta þau þúsundum.

Á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) kemur fram að ebólufaraldur í Austur-Kongó geisi enn og hafi gert síðan í fyrra. Annar ebólufaraldur er skráður frá árinu 2018-2020 og segir að 3.481 einstaklingur hafi smitast og þar af 2.299 látist, eða 66%.

Stærsti ebólufaraldur frá upphafi varð árið 2014 í vesturhluta Afríku. Þá létust flestir í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu eða um 28 þúsund manns. Áður en þeim faraldri lauk breiddist hann til Bretlands, Spánar, Ítalíu og Bandaríkjanna þar sem einn lést.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert