Fullyrðingar Trump kostað skattgreiðendur milljarða

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Ósannaðar fullyrðingar Donalds Trumps fyrrverandi bandaríkjaforseta um meint kosningasvindl í forsetakosningunum sem fram fóru í nóvember hafa kostað skattgreiðendur í Bandaríkjunum 519 milljónir bandaríkjadala, sem jafngildir rúmum 67 milljörðum króna. 

Kostnaður yfirvalda vegna staðhæfinga Trumps hefur aukist daglega, en yfirvöld hafa þurft að ráðstafa umfangsmiklu fé vegna gjörða forsetans fyrrverandi og stuðningsmanna hans, að því er Washington Post segir í umfjöllun sinni. 

Á meðal kostnaðarliða eru lögfræðikostnaður, aukinn kostnaður vegna öryggisgæslu í kjölfar morðhótana gagnvart sjálfboðaliðum á kjörstöðum og viðgerðarkostnaður í kjölfar óeirðanna sem urðu þegar múgur réðst inn í þinghús Bandaríkjaþings 6. janúar. 

Stærstur hluti kostnaðarins, um 480 milljónir, er vegna dvalar 25.000 þjóðvarðliða í Washington-umdæmi, en áætlað er að þeir dvelji í borginni fram í mars. Þjóðvarðlið var sent til borgarinnar í kjölfar árásarinnar á þinghúsið til að koma í veg fyrir frekari óeirðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert