Ein er sú starfsstétt í Noregi sem ekki kvíðir afkomunni á tímum þegar yfir 200.000 Norðmenn eru í atvinnuleit í kórónukreppu, en það eru meindýraeyðar. Eftir langvarandi lokanir eða í besta falli viðskipti í skötulíki á veitingastöðum landsins í veirufaraldrinum hafa norskar rottur nú gefist upp á miðbæjunum þegar engar matarleifar er að hafa í sorpgeymslum og bakrýmum veitingahúsanna sem almennt eru þeirra gósenland.
Þess í stað flykkjast rotturnar nú inn á heimili landsmanna með tilheyrandi sóðaskap og skemmdarverkum eins og Trond-Arnt Trondsen, meindýraeyðir hjá Rentokil Skadedyrkontroll í Bodø, hefur rætt við norðlensku dagblöðin Avisa Nordland og Saltenposten auk þess sem norska ríkisútvarpið NRK ákvað að slást í för með honum inn á heimili viðskiptavina þar sem brúnrottur höfðu hreiðrað um sig.
„Sjáið allan rottuskítinn hérna, augljóst er að þær hafa verið hér um stund,“ segir Trondsen og bendir NRK-mönnum á litlar hrúgur af úrgangi brúnrottunnar sem er algeng um nær allan Noreg og getur orðið allt að hálft kíló að þyngd og 25 sentimetra löng auk allt að 21 sentimetra langs hala. Fullorðið dýr þarf að meðaltali að éta 28 grömm á sólarhring og er ekki mjög kresið á mat, étur nánast allt sem að kjafti kemur.
Brúnrottan ber latneska heitið Rattus norvegicus sem reyndar er byggt á tómum misskilningi. Lengi var það hald manna að sænski læknirinn og náttúrufræðingurinn Carl von Linné, upphafsmaður latneska tvínafnakerfisins, hefði gefið brúnrottunni nafnið og kennt við Noreg. Svo var þó ekki heldur var það annar læknir og náttúrufræðingur, Bretinn John Berkenhout, sem gaf brúnrottunni þessa norsku skírskotun þar sem hann taldi hana hafa borist með norskum kaupskipum frá Noregi til Englands. Hið rétta var þó að brúnrottan er asísk að uppruna.
„Í veirufaraldrinum höfum við tekið eftir breyttu hegðunarmynstri hjá rottunum,“ heldur Trondsen meindýraeyðir áfram, „þær hafa yfirgefið baklóðir veitingahúsanna og leita nú ætis annars staðar.“
Kveður hann nú fjölda tilkynninga berast frá fólki sem vart hafi orðið við rottur á heimilum sínum. Fólk sinni nú starfi sínu heima hjá sér sem aldrei fyrr og þá gefist gott tóm til að hlusta eftir nýjum hljóðum, svo sem skrjáfi og daufu krafsi í veggjum en rotturnar geta nagað sig gegnum flest efni og smogið um op sem eru ekki meira en örfáir sentimetrar í þvermál þrátt fyrir stærð sína.
Ekki bætir úr skák að nú hefur háþrýstisvæði lúrt yfir Noregi dögum saman með kyrru björtu veðri og ískulda víða sem gerir það að verkum að rotturnar leita af ákefð inn í hlýjuna. Aðfaranótt fimmtudags mældist sem dæmi 36 stiga frost í Røros.
Arne Nese, tæknistjóri Rentokil, staðfestir orð samstarfsmanns síns. „Við tókum eftir því strax í kjölfar þess að Noregur lokaði 12. mars, að erindin streymdu inn til þjónustuversins okkar,“ segir Nese og bætir því við að hann hafi kynnt sér athuganir á hegðun nagdýranna á alþjóðavettvangi síðan heimsfaraldurinn hófst. „Hegðun þeirra er breytt. Meðal annars þykja þær orðnar illskeyttari, líklega vegna minnkandi fæðuframboðs.“
Örðugt er þó að finna haldbæra tölfræði yfir þennan nýja vanda. Lýðheilsustofnun Noregs, FHI, heldur utan um meindýratölfræði á landinu, en hún nær ekki yfir rottur og mýs.
Arnulf Soleng er yfirrannsakandi meindýradeildar FHI. Hann segist ekki hafa neinar tölur á hraðbergi, hins vegar hafi hann heyrt af breyttu hegðunarmynstri brúnrottunnar. „Við höfum fengið tilkynningar frá Austurlandinu, Hedmark [nú Innlandet] og Ósló, og mikið heyrt af Suðurlandinu og svo upp eftir Vesturlandinu. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi í Bergen,“ segir Soleng.
„Nagdýr geta valdið tjóni sem nemur hundruðum þúsunda [norskra króna],“ segir Trondsen meindýraeyðir að lokum, „þau naga til dæmis í sundur rafmagnsleiðslur sem getur valdið eldsvoða. Mörg tryggingamál hafa sprottið af því.“
Senn líður svo að árstíðabundnum vágestum, maurunum, svo norskir meindýraeyðar þurfa sem fyrr segir ekki að óttast verkefnaskort á veirutímum.