Örfá ríki heims hafa þann háttinn á að skikka alla sem koma inn í landið á farsóttarhótel á meðan þeir bíða af sér fyrstu sóttkvína.
Það eru Nýja-Sjáland, Suður-Kórea, Singapúr og loks Ástralía en vel heppnaðar ráðstafanir þar hafa ítrekað ratað í heimsfréttir.
Rúmlega 200.000 manns hafa frá upphafi faraldurs þurft að dveljast í farsóttarhúsi við komuna til Ástralíu, þar sem einangrun þeirra er tekin mjög alvarlega. Þegar samfélagið er í fullum gangi er það enda afdrifaríkt ef smit ratar út af farsóttarhótelunum.
Frá því í nóvember hafa þrjár borgir skyndilega þurft að snarloka öllu vegna glufu í varnargarðinum.
Þegar það gerðist í Melbourne í júlí breiddi veiran svo hratt úr sér að smitin sem af hlutust eru 90% af öllum smitum í Ástralíu frá upphafi faraldursins.
Af þessum sökum leggja Ástralar allt kapp á að halda farsóttarhúsum sínum pottþéttum, rétt eins og Íslendingar yrðu að líta til ef ákveðið væri að fara þessa sömu leið.
Eins og BBC fjallar um í grein um sóttkvíarhótelin, þurfa verðirnir að vera í strangri einangrun sjálfir. Hópsýkingarnar sem urðu í júlí voru sumar raktar til helst til innilegra samskipta á milli gests hótels nokkurs og varðar, sem síðan fór með smit út í samfélagið.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur viðrað hugmyndir um að herða aðgerðir á landamærum Íslands. Einn möguleikanna þar er að skylda gesti landsins til að hefja dvöl sína í farsóttarhúsi.
Ljóst er að þar þurfa að gilda mjög skýrar reglur, því eins og segir í grein BBC, var alls ekki um náin samskipti varða og gesta að ræða í öllum þeim tilfellum þar sem veiran komst út í samfélagið.
Öllu heldur orsakaðist það að mati vísindamanna í einhverjum tilfellum af því að vörður gekk sömu leið og sýktur einstaklingur hafði gengið innan byggingarinnar. Loftsmit getur orðið og þá er skaðinn skeður.
Strax er betra ef verðirnir geta fengið bólusetningu enda verður hættan strax þeim mun minni á að smit fari í gegnum þá og út í samfélagið.