Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur viðurkennt að sambandið hafi verið of lengi að samþykkja bóluefni við Covid-19.
„Við erum ekki á þeim stað þar sem við viljum vera,“ sagði hún í ræðu á Evrópuþinginu.
Von der Leyen var á þinginu gagnrýnd af þingmönnum fyrir hægagang af hálfu ESB við að útvega bóluefni.
Hún sagðist samt sannfærð um að ákvörðunin um að panta bóluefni í sameiningu hafi verið sú rétta í stöðunni, að því er BBC greindi frá.
Framkvæmdastjórn ESB hefur verið gagnrýnd fyrir það hversu langan tíma hefur tekið að útvega bóluefni. Áætlun þess efnis var samþykkt í júní í fyrra. Samið var um kaup á bóluefnum fyrir hönd þeirra ríkja sem eru í ESB.
Seinkun hefur orðið á bóluefnum frá framleiðendum, þar á meðal Oxford-AstraZeneca og Pfizer-BioNTech.