Instagram hefur lokað síðu Roberts F. Kennedys Jr., sem berst hatramlega gegn bólusetningum. Ástæðan fyrir því að síðu hans er lokað eru rangfærslur sem þar eru, það er upplýsingaóreiða í tengslum við kórónuveiruna.
Reikningur hans var fjarlægður vegna síendurtekinna rangfærslna í tengslum við kórónuveiruna og bólusetningar segir í tilkynningu frá Facebook, sem á Instagram.
Kennedy er sonur fyrrverandi öldungadeildarþingmannsins og dómsmálaráðherrans, Roberts F. Kennedys. Hann starfaði í áratugi sem lögmaður á sviði umhverfismála en er nú þekktastur fyrir baráttu sína gegn bólusetningum.
Rannsókn leiddi í ljós árið 2019 að tveir hópar, þar á meðal samtök hans Children’s Health Defense, hafi fjármagnað yfir helming allra auglýsinga á Facebook þar sem dreift er upplýsingaóreiðu tengda bólusetningum.
Vinsældir hans hafa aukist mjög á samfélagsmiðlum eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út og eru fylgjendur hans til að mynda um 800 þúsund talsins á Instagram.
Þrátt fyrir að Kennedy hafi sagt að hann sé ekki á móti bólusetningum svo lengi sem þær eru öruggar þá birtir hann mjög oft tengla á frásagnir af tengslum milli bólusetninga og einhverfu. Hann hefur einnig haldið því fram að það sé betra að komast í snertingu við Covid-19 en að verða bólusettur fyrir veirunni.
Samkvæmt frétt New York Times eru stjórnendur Facebook orðnir harðari í aðgerðum gagnvart upplýsingaóreiðu um bólusetningar. Í vikunni sögðu þeir að færslur yrðu fjarlægðar þar sem lygum um kórónuveiruna, bólusetningar við Covid-19 og bólusetningar almennt. Hvort sem um greiddar auglýsingar er að ræða eða færslur notenda.
Auk reiknings Kennedys voru átta aðrir reikningar á Instagram og Facebook fjarlægðir í gær vegna þessa. Aftur á móti er Facebook-síðan Kennedys enn opin þar sem margar af sömu rangfærslum er að finna.
Fólk í fjölskyldu Kennedys hefur harðlega gagnrýnt andstöðu hans við bólusetningar, þar á meðal bróðir has, systir og frænka sem segja hann dreifa hættulegri upplýsingaóreiðu í grein sem þau skrifuðu í Politico árið 2019.
Frænka hans, Kerry Kennedy Meltzer, sem er læknir við NewYork-Presbyterian Hospital/Weill Cornell Medical Center, skrifaði grein í New York Times í desember þar sem hún hrekur fullyrðingar hans.
„Ég elska Bobby frænda minn,“ skrifar hún. „Ég dáist að honum fyrir margra hluta sakir, meðal annars áratuga langa baráttu hans fyrri hreinna andrúmslofti. En þegar kemur að bólusetningum þá hefur hann rangt fyrir sér.“