„Nancy, hvar ertu Nancy?“

Von er á því að ákæruvaldið gegn Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, muni birta samantekt um málið þegar réttarhöldin hefjast að nýju síðar í dag. Í gær var þingheimi sýnt hrollvekjandi myndskeið þar sem öldungadeildarþingmenn sjást flýja í örvæntingu undan æstum skrílnum sem réðst inn í þinghúsið á þrettándanum.

Ákæruvaldið, sem er í höndum demókrata, mun reyna að sýna fram á að Trump hafi stýrt óeirðarseggjunum með því að hvetja þá til dáða. Það tók greinilega á marga að vera við réttarhöldin í gær þar sem hryllilegar lýsingar á atburðunum í þinghúsinu 6. janúar komu fram bæði í máli og myndum að því er segir í fréttaskýringu AFP-fréttastofunnar. Myndefnið er meðal annars úr öryggismyndavélum hússins og líkamsmyndavélum lögreglumanna. Myndir sem hafa aldrei áður verið sýndar opinberlega. 

Fimm létust í og við þinghúsið, þar á meðal kona sem ruddist inn í húsið og lögreglumaður sem lést eftir að hafa lent í átökum við innrásarmennina. 

Óeirðirnar brutust út eftir að Trump ávarpaði stuðningsmenn sína skammt frá Hvíta húsinu þennan sama dag. Þar hélt hann því fram að ástæðan fyrir því að hann hefði tapað kosningum væri kosningasvindl. Verjendur Trumps segja að það sé ekki hægt að saka hann persónulega um að bera ábyrgð á óeirðunum og að réttarhöldin brjóti gegn stjórnarskrá landsins þar sem hann sé ekki lengur forseti landsins.  

AFP

Í myndskeiði sem var sýnt í öldungadeildinni í gær mátti sjá öryggisverði forða Mike Pence varaforseta með hraði út úr salnum sem og fjölskyldu Pence. 

Chuck Schumer, þingmaður demókrata í öldungadeildinni, sést einnig á mynd þar sem hann sleppur naumlega undan lýðnum. Eins öldungadeildarþingmaðurinn Mitt Romney. Hann er samflokksmaður Trumps en hefur oft verið á annarri skoðun en sá síðarnefndi sem hefur þýtt að stuðningsmenn Trumps leggja fæð á hann. 

Jafnframt var sýnt frá því þegar innrásarhópurinn brýst inn á skrifstofu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, en hún er eitt helsta skotmark stuðningsmanna Trumps. „Nancy, hvar ertu Nancy?“ heyrist frá óeirðaseggjunum þar sem þeir leita hennar. Það sem þeir vissu ekki var að átta af starfsfólki skrifstofu Pelosi földu sig bak við luktar dyr á þessum sama gangi. Aftur á móti var búið að koma Pelosi í skjól.

„Við vitum það frá óeirðaseggjunum að ef þeir hefðu fundið Pelosi hefðu þeir drepið hana,“  sagði Stacey Plaskett, sem stýrir saksókninni gegn Trump.

AFP

Trump var hvergi nærri í gær enda heldur hann til á lúxusvillu í Flórída, Mar-a-Lago og þar hefur hann haldið sig í þrjár vikur eða frá því hann fór frá því að vera forseti í að vera fyrrverandi forseti. 

Einhverjir repúblikanar í öldungadeildinni hafa lýst andstyggð sinni á óreiðunum og sakað Trump um að geta ekki sætt sig við ósigurinn. Meðal þeirra er Lisa Murkowski en hún segir sannanir gegn Trump sláandi. Þingmaðurinn Bill Cassidy tók í svipaðan streng en þau tvö voru meðal þeirra sex þingmanna Repúblikanaflokksins sem greiddu atkvæði með því að réttarhöldunum yrði fram haldið. 

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Hins vegar er afar ósennilegt að Trump verði dæmdur enda þarf tvo þriðju atkvæða öldungadeildarinnar til að svo verði. Það þýðir að 17 þingmenn repúblikana þurfa að greiða atkvæði með dómnum. 

Þar sem Trump hefur verið hent út af samfélagsmiðlum fer minna fyrir honum í opinberri umræðu en áður. Talið er að ráðgjafar hans hafi einnig beðið hann um að halda að sér höndum þar sem þeir óttast að ef Trump stígi fram geti það snúið þingmönnum repúblikana gegn honum. 

Bandarískir fjölmiðar greina frá því að Trump hafi verið bálreiður út í verjendur sína á þriðjudag þar sem hann telur að þeir hafi staðið sig afar illa við að verja heiður hans. 

Sveitasetur Donalds Trump, Mar-a-Lago.
Sveitasetur Donalds Trump, Mar-a-Lago. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert