Þau sem voru handtekin í Danmörku talin tengjast samtökum herskárra íslamista

Samkvæmt fjölmiðlum í Danmörku er um átta karlmenn og fimm …
Samkvæmt fjölmiðlum í Danmörku er um átta karlmenn og fimm konur að ræða. AFP

Talið er að þau fjórtán sem handtekin voru vegna gruns um skipulag hryðjuverka í Danmörku og Þýskalandi tengist samtökum herskárra íslamista.

Þetta kom fram á blaðamannafundi dönsku lögreglunnar í morgun. Þrettán voru handtekin í nágrenni Kaupmannahafnar um helgina og einn í Þýskalandi, og eru þau talin hafa verið að undirbúa eina eða fleiri hryðjuverkaárásir og sankað að sér sprengiefni og skotvopnum í þeim tilgangi.

Samkvæmt fjölmiðlum í Danmörku er um átta karlmenn og fimm konur að ræða. 

Þýskir sakskóknarar hafa svo greint frá því að þrír þeirra handteknu væru bræður frá Sýrlandi. Tveir þeirra hafi verið handteknir í Danmörku og sá þriðji í Þýskalandi. Þýska lögreglan komst á spor bræðranna í síðustu viku eftir að þeir höfðu pantað efnablöndur á netinu sem hægt er að nota við gerð sprengiefnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert