Rússar sagðir æfa árás á Ísland

Rússnesk Tupolev Tu-22M3-sprengjuflugvél. Vélarnar sem Rússar notuðu á æfingu í …
Rússnesk Tupolev Tu-22M3-sprengjuflugvél. Vélarnar sem Rússar notuðu á æfingu í vikunni voru af gerðinni Tu-160. AFP

Rússneski flugherinn viðraði tvær sprengjuflugvélar sínar af gerðinni 17 Tu-160 á dögunum þegar þær flugu 6.000 mílna hring í kringum Norður-Evrópu.

Um er að ræða kraftmestu sprengjuflugvélar rússneska hersins, en samkvæmt umfjöllun Forbes eru þær algeng sýn í lofthelgi Evrópu, auk þess sem þær séu stundum notaðar til að skjóta mjög langdrægum flugskeytum á svæði uppreisnarhópa í Sýrlandi.

En þessi tiltekna flugferð gæti reynst sérstök, annars vegar fyrir þær sakir að þær séu hugsanlega svar við þeim áætlunum Bandaríkjahers að staðsetja tvær B-1-sprengjuflugvélar í Noregi í fyrsta sinn. Hins vegar er talið að Rússarnir gætu hafa verið að æfa sjaldgæfa flugleið sem gæti orðið mikilvæg komi til stríðs.

Tu-160-flugvélarnar geta borið bæði kjarnorku- og hefðbundnar sprengjur, en þær geta ekki gert árásir á skip og myndu því gera fastaland að skotmarki, að því er segir í umfjöllun Forbes. Rússneski flugherinn hefur sést á æfa á Tu-160-flugvélunum yfir Svarta hafi, Eystrasalti, Norðursjó og Atlantshafi, sem gefur tilefni til að ætla að þeir gætu haft í huga árásir á herstöðvar í Úkraínu sem og í norðurvígi Atlantshafsbandalagsins.

Æfing þessarar viku var hins vegar sögð sérstök að því leyti að flogið hafi verið frá herstöð í Engels í vesturhluta Rússlands norður yfir Atlantshafið og svo vestur yfir Svalbarða, suður í Noregshaf, austur eftir strönd Noregs og þaðan aftur til Engels. 

Nálguðust Ísland úr óvæntri átt

Tvær F-16-orrustuþotur norska hersins trufluðu flug rússnesku Tu-160-vélanna við norðurhluta Noregs, en það sem vakti helst athygli var sá hluti æfingarinnar þar sem flugvélarnar nálguðust Ísland úr norðri áður en þær breyttu um stefnu og héldu aftur austur á leið.

Ekki er ljóst hversu oft rússneski flugherinn hefur flogið þessa leið á undanförnum árum, en hugsanlegt er að um hafi verið að ræða svar við aukinni vöktun Atlantshafsbandalagsins á lofthelgi Íslands undanfarin misseri.

Ítalski, bandaríski og breski flugherinn hefur meðal annars sinnt lofthelgigæslunni, og er þá hafsvæðið milli Íslands og Grænlands, Íslands og Bretlands og loks Bretlands og Grænlands vaktað, svokallað GIUK-hlið, en á stríðstímum myndi Atlantshafsbandalagið líklega leggja mikla áherslu á að hindra aðgang Rússa inn á þetta svæði og myndu Rússar þá líklega reyna að bæla varnaraðgerðir bandalagsins, og mikilvægi þeirrar aðgerðir aukast eftir því sem Atlantshafsbandalagið eykur varnir sínar á svæðinu.

Auk áætlana Bandaríkjahers um að staðsetja B-1-sprengjuflugvélar í Noregi hefur herinn áður haft B-2-vélar á Íslandi, sem gætu auðveldlega gert atlögu að herstöðvum Rússa á svæðinu frá Íslandi, sem gerir Ísland að enn mikilvægara skotmarki Rússa.

Í umfjöllun Forbes segir að Ísland sé erfitt skotmark, en ef einhver vél geti gert árangursríka árás á Ísland séu það Tu-160-flugvélar Rússa, sem séu svo langdrægar að þær geti flogið hring í kringum landið og haldið sig utan skotmáls áður en þær gerðu atlögu að landinu með stefnu sem erfitt væri fyrir Atlantshafsbandalagið að verja sig úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert