Danir vilja bólusetja allt að 400.000 á dag

Eins og sakir standa geta Danir bólusett allt að 100 …
Eins og sakir standa geta Danir bólusett allt að 100 þúsund manns á dag. AFP

Danska ríkið mun gera samninga við einkareknar heilbrigðisstofnanir með það fyrir augum að geta bólusett allt að 400 þúsund manns gegn kórónuveirunni á dag þegar hraða fer á afhendingu bóluefnis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur. 

Þá standi til að hægt verði að fá bólusetningar hjá heimilislæknum og í apótekum, líkt og þegar er hægt með bólusetningu fyrir inflúenslu.

„Við getum ekki verið í þeim sporum að bóluefni sitji og safni ryki af því það er enginn til að sprauta. Þess vegna ætlum við að hefja undirbúning strax,“ segir í tilkynningu Heunicke.

Eins og sakir standa geta Danir bólusett allt að 100 þúsund manns á dag. Þegar hafa 2,75% dönsku þjóðarinnar lokið bólusetningu, og 3,66% hafa fengið fyrri skammt og er Danmörk í 7. sæti yfir þau lönd sem lengst eru komin með bólusetningu.

274 greindust með kórónuveiruna í Danmörku síðasta sólarhring og var smitprósetna 0,22%. Smit hafa ekki verið svo fá á einum degi síðan fyrir miðjan september. 

Nokkuð strangar takmarkanir eru í gildi í Danmörku. Þar eru allar verslanir sem ekki selja nauðsynjavörur lokaðar, veitingastaðir mega aðeins selja mat til að taka með og það var ekki fyrr en í síðustu viku sem börn í 1. til 5. bekk máttu snúa aftur til skóla síðan í desember. Öll önnur skólastarfsemi liggur enn niðri.

Takmarkanir þessar eiga að gilda út febrúar, og útilokar Mette Frederiksen forsætisráðherra ekki að hægt verði að slaka á aðgerðum.

Frétt DR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert