Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur sýknað Donald Trump fyrrveranda Bandaríkjaforseta af ákæru fulltrúadeildar þingsins til embættismissis.
Tvo þriðju hluta atkvæða viðstaddra þarf til að sakfella í máli sem þessu.
Atkvæði féllu svo að 57 greiddu atkvæði með sakfellingu og 43 greiddu atkvæði með sýknu.
Fulltrúadeildin ákærði Trump til embættismissis 13. janúar öðru sinni, sem á sér engin fordæmi í bandarískri sögu. Átti hann þá aðeins ósetið eina viku á valdastóli.
Fyrir deildinni lá að vega og meta hvort dæma skyldi Trump fyrir það sem bandaríska stjórnarskráin kallar „glæpi á háu stigi og misgjörðir“. Hann var ákærður til embættismissis í fulltrúadeildinni fyrir að „hvetja til innrásar“ í þinghúsið í ræðu í Washington 6. janúar, sem stuðningsmenn hans svo gerðu.
Fimm manns biðu bana í áhlaupinu, þar á meðal lögregluþjónn.