Þungarokkari sektaður fyrir guðlast

Adam Darski, betur þekktur sem Nergal, forsprakki þungarokksveitarinnar Behemoth.
Adam Darski, betur þekktur sem Nergal, forsprakki þungarokksveitarinnar Behemoth. AFP

Pólskur dómstóll sektaði í dag forsprakka pólsku þungarokkshljómsveitarinnar Behemoth fyrir guðlast. Adam Darski, betur þekktur sem Nergal, var fundinn sekur um að lítillækka kristna trú með því að birta mynd af sér á samfélagsmiðlum þar sem hann traðkar á mynd af Maríu mey.

Darski var sektaður um 15 þúsund sloty, andvirði um hálfrar milljónar króna. Þá var honum gert að greiða sakarkostnað sem nam um 100 þúsund krónum.

Lög í Póllandi sem snúa að trúarlegri blygðunarkennd íbúa landsins hafa verið harðlega gagnrýnd undanfarið þar sem þau þykja vega gegn málfrelsi í landinu.

Darski segist ekki ætla að una umræddum sektarúrskurði og því fer málið fyrir dómstóla. Hann getur átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisdóm, verði hann fundinn sekur, en hann hefur áður verið ávíttur fyrir álíka brot.

Hljómsveit Darskis, Behemoth, var stofnuð árið 1991 og hefur Darski meðal annars rifið eintak af Biblíunni á sviði, við litla hrifningu íhaldsamra landa hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert