Norski dómsmálaráðherrann Monica Mæland hefur fallið frá áður boðaðri lagasetningu um útgöngubann eftir að frumvarp til laganna galt afhroð í samráðsgátt norskra stjórnvalda þar sem það lá frammi með umsagnafrest til 31. janúar.
Alls bárust um 1.400 umsagnir um frumvarpið sem í langflestum tilvikum var fundið allt til foráttu, en 1.200 umsagnir bárust frá einstaklingum. Meðal þeirra sem komu frá fyrirtækjum og stofnunum var umsögn frá norsku áfengiseinkasölunni Vinmonopolet sem lagðist eindregið gegn frumvarpinu með þeim rökum að áfengissmyglurum og sprúttsölum yxi fiskur um hrygg sem aldrei fyrr væri þjóðin læst inni á heimilum sínum hluta sólarhringsins.
Ekki var það þó ætlun dómsmálaráðherra að virkja heimildina um leið og frumvarpið yrði að lögum, hefði svo farið, heldur taldi Mæland nauðsynlegt, að fengnu áliti Bjørn Guldvog, forstöðumanns Heilbrigðisstofnunar Noregs, að lagaheimild væri til staðar, yrði farsóttarástandið í landinu svo ískyggilegt, að öll sund virtust lokuð og útgöngubann eina úrræðið.
Auðheyrt var af umræðu í þjóðfélaginu í janúar, að norskur almenningur var ekki hlynntur lögum um útgöngubann, en eldri Norðmenn muna margir tíma þegar útgöngubann að kvöldi var blákaldur raunveruleiki um skemmri eða lengri tímabil, sem var á hernámsárunum 1940 – 1945 þegar landið var undir járnhæl nasista í hálfan áratug í kjölfar skyndilegrar og þaulskipulagðrar innrásar þeirra 9. apríl 1940.
„Við gerum okkur ljóst að við þörfnumst ekki útgöngubanns sem ráðstöfunar. Engu að síður töldum við nauðsynlegt að leggja drög að því á óvissutímum,“ segir Mæland við norska ríkisútvarpið NRK.
Ekki er lengra en mánuður síðan Erna Solberg forsætisráðherra varði bollaleggingar stjórnarinnar í ræðu á Stórþinginu. „Enginn óskar eftir útgöngubanni í Noregi. En komi til þess, að við stöndum frammi fyrir stjórnlausu smiti, þannig að lífi og heilsu fjölda fólks sé stefnt í voða, gæti það verið okkar síðasta hálmstrá,“ sagði Solberg í ræðu sinni 18. janúar.
Mæland dómsmálaráðherra rökstuddi frumvarp sitt með því að mörg Evrópuríki hefðu gripið til útgöngubanns í heimsfaraldrinum og nauðsynlegt væri að norsk stjórnvöld ættu þann lokavalkost ef allt annað þryti.
Guri Melby, formaður Venstre-flokksins og menntamálaráðherra, fagnar örlögum frumvarpsins umdeilda. „Ég gleðst yfir því að þetta er úr sögunni. Umsagnaferlið færði okkur heim sanninn um hve stórt inngrip felst í útgöngubanni og hvers vegna við þurfum ekki á slíku að halda. Við höfum notast við kerfi sem byggir á trausti í okkar sóttvarnastefnu og það hefur gefist vel,“ segir menntamálaráðherrann við NRK.