Facebook hefur komið í veg fyrir að Ástralar geti deilt fréttum eða skoðað þær á samfélagsmiðlinum.
Þannig er Facebook að bregðast við nýju lagafrumvarpi sem yrði til þess að tæknirisar þyrftu að borga fyrir að birta fréttaefni á síðum þeirra.
Þegar Ástralar vöknuðu í morgun gátu þeir heldur ekki skoðað þó nokkrar síður stjórnvalda sem snúa að heilbrigðismálum og almannavörnum. Facebook sagði síðar að það hefðu verið mistök.
Ástralar hafa gagnrýnt Facebook fyrir uppátækið. „Facebook hafði rangt fyrir sér. Aðgerðir Facebook voru ónauðsynlegar, þær voru of miklar og þeir eiga eftir að skaða orðspor sitt hérna í Ástralíu,“ sagði Josh Frydenberg, fjármálaráðherra landsins.
Hann lagði áherslu á að stjórnvöld væru staðráðin í því að halda sig við áætlun sína. Lagafrumvarpið var samþykkt í fulltrúadeild þingsins í gær og bíður það núna samþykkis öldungadeildarinnar.
Treasurer Josh Frydenberg has refused to back down after Facebook restricted publishers and people in Australia from sharing or viewing news content, including SBS News, in response to proposed legislation. pic.twitter.com/pQ7MlQmL2K
— SBS News (@SBSNews) February 18, 2021
„Það sem gerðist í dag sýnir hversu stórt markaðshlutfall Ástralíu er hjá þessum tæknirisum,“ bætti Frydenberg við. „Þessir tæknirisar eru mjög, mjög fyrirferðarmiklir í efnahag okkar og þegar kemur að hinu stafræna landslagi.“
Gagnrýni Frydenbergs kom nokkrum klukkustundum eftir að hann tísti að hann hefði átt „uppbyggilegar viðræður“ við Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook.