Búist er við því að Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsi í dag yfir neyðarástandi í Texas-ríki vegna vetrarstormsins sem þar gengur nú yfir. Sé neyðarástandi lýst yfir liðkar það fyrir auknum fjárstyrkjum yfirvalda.
Rafmagn er komið á að nýju á flestum stöðum og hitastig fer hlýnandi en um 13 milljónir íbúa ríkisins eiga þó erfitt með að nálgast hreint drykkjarvatn.
Biden hefur sagt að hann muni heimsækja ríkið svo lengi sem heimsóknin hafi ekki neikvæð áhrif á björgunaraðgerðir. Nærri 60 hafa látist í veðrinu.
Jen Psaki upplýsingafulltrúi Hvíta hússins hefur staðfest að Biden hafi fyrirskipað teymi sínu að afgreiða beiðni ríkisins um að neyðarástandi verði lýst yfir. Þá hefur Biden átt í samskiptum við borgarstjóra stærstu borga ríkisins á borð við Houston, Austin og Dallas.
Nokkur önnur suðurríki hafa orðið fyrir rafmagns- eða vatnsleysi vegna veðursins, meðal annars Mississippi og Tennessee.
Á föstudagskvöld voru 180 þúsund heimili og fyrirtæki án rafmagns í Texas, en þegar mest lét var um að ræða 3,3 milljónir íbúða og annars húsnæðis.
Þá hefur íbúum Texas verið fyrirskipað að sjóða allt vatn sem ætlað er til neyslu til að koma í veg fyrir smitsjúkdóma.