Maður réðst inn í húsnæði skotfélags og skaut tvo til bana og særði tvo í New Orleans í Bandaríkjunum á laugardag. Viðskiptavinir og starfsmenn gripu til vopna og skutu á árásarmanninn sem lést einnig.
Árásin varð laust fyrir klukkan þrjú síðdegis að staðartíma, seint á laugardagskvöld að íslenskum tíma, á staðnum Jefferson Gun Outlet, sem bæði er byssubúð og skotfélag þar sem fólk getur æft sig að beita vopnum.
AP-fréttaveitan hefur eftir Joseph Lopinto lögreglustjóra að þeir særðu séu ekki í lífshættu. Þá sé talið að byssumennirnir hafi verið fleiri en einn. „Við erum enn að reyna að púsla þessu saman,“ sagði Lopinto við blaðamenn.
AP ræðir við Tyrone Russell og Wanettu Joseph sem bæði voru á skotnámskeiði á svæðinu þegar þau heyrðu skothríðina. Hún hafi verið mun háværari en það sem þau eigi að venjast af skotsvæðinu þar sem allir noti hljóðdeyfa.
„Við heyrðum skothvelli og öskur,“ segir Russell. „Þegar lögreglan kom var okkur fylgt út. Það voru glerbrot alls staðar [...] Þetta var mjög ógnvekjandi.“
Þá lýsir hann því hvernig hann sá lík árásarmannsins á bílastæðinu og að bíllinn hans hafi orðið fyrir skotum.