Nýtt afbrigði breiðist hratt út í New York

Afbrigðið gæti haft neikvæð áhrif á virkni bóluefnis gegn Covid-19.
Afbrigðið gæti haft neikvæð áhrif á virkni bóluefnis gegn Covid-19. AFP

Nýtt afbrigði kórónuveirunnar breiðist nú hratt um New York-borg í Bandaríkjunum. Afbrigðið ber í sér stökkbreytingu sem getur haft slæm áhrif á virkni bóluefna, samkvæmt niðurstöðum tveggja teyma vísindamanna. 

New York Times greinir frá.

Afbrigðið kallast B.1.526. en það birtist fyrst í sýnum sem tekin voru í borginni í nóvembermánuði. Um miðjan mánuðinn var um það bil fjórði hver sem smitaður var af kórónuveirunni smitaður af þessu nýja afbrigði. 

Ein rannsókn á nýja afbrigðinu, sem leidd var af Caltech-tækniháskólanum, birtist á þriðjudag. Niðurstöður hinnar rannsóknarinnar, sem unnin var af vísindamönnum við Columbia háskóla, hafa ekki verið opinberaðar. 

Hvorug rannsóknin hefur verið ritrýnd né birt í vísindatímariti en sérfræðingar segja niðurstöður þeirra bendi til þess að útbreiðsla afbrigðisins sé veruleg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert