„Í dag má vera mæðulegur“

Raymond Johansen kynnir enn eitt sóttvarnaátakið fyrir Óslóarbúum á blaðamannafundinum …
Raymond Johansen kynnir enn eitt sóttvarnaátakið fyrir Óslóarbúum á blaðamannafundinum í kvöld. Skjáskot/Bein útsending NRK af fundinum.

„Ég veit að ég er að fara fram á mikið og að þetta er mikið inngrip,“ sagði Raymond Johansen, formaður borgarráðs Óslóar, á blaðamannafundi í kvöld þar sem hann kynnti borgarbúum nýjar farsóttarreglur sem gilda frá miðnætti annað kvöld, mánudag, til og með 15. mars.

Eins og mbl.is greindi frá í gær komu 245 ný smit upp í höfuðborginni sólarhringinn þar á undan, sem er það mesta sem mælst hefur frá upphafi faraldurs og nánast helmingur allra smita í Noregi þann sólarhringinn og er hinu svokallaða breska afbrigði veirunnar, B.1.1.7, kennt um vegna smiteiginleika þess.

Allar verslanir loki

Sagði Johansen ekkert byggðarlag landsins hafa gengið lengra en Ósló í sóttvörnum og enga hafa goldið varnir sínar hærra verði en höfuðborgarbúa og vísaði þar til þess að síðan snemma í nóvember hefur nánast öll starfsemi verið skert sem unnt er að skerða.

Í kvöld voru þó kynntar nýjar og frekari skerðingar og mega Óslóarbúar nú búa sig undir eftirfarandi fram í miðjan mánuð hið minnsta:

  • Allir veitingastaðir skulu loka, fyrir utan skyndibitastaði sem selja mat út
  • Allar verslanir skulu loka, að undanskildum apótekum, matvöruverslunum og áfengisútsölum
  • Gallerí og staðir sem selja listaverk skulu loka
  • Mælst er gegn skipulagðri tómstundaiðju eldra fólks en 20 ára (án banns)
  • Samkomur utandyra eru bannaðar
  • Símenntun og framhaldsskólar fara á rautt stig
  • Nemendur framhaldsskóla skulu ekki mæta í skólann næstu tvo daga
  • Nemendur (skólastig ótilgr.) gangast undir fjöldaveirupróf með munnvatnssýnum
  • Fólk forðist heimsóknir nema til þeirra sem búa einir og yngri ættingja
  • Borgin mun leggja fram sérreglur um starfsemi í byggingariðnaði

„Í dag má vera mæðulegur,“ („det er lov å være lei seg i dag“) sagði borgarráðsformaðurinn á fundinum og bætti því við að borgaryfirvöldum væri nauðugur einn kostur að grípa til ýtrustu ráðstafana.

Lagði Johansen enn fremur ríka áherslu á nauðsyn þess að meira bóluefni bærist til Óslóar þar sem þar væri þörfin mest. Borgin væri nú í 279. sæti af byggðarlögum Noregs þegar litið væri til hlutfalls bólusettra íbúa.  „Þetta er ekki vegna þess að við erum svona hægfara heldur vantar okkur meira bóluefni,“ sagði Johansen.

„Þarf ég að hitta þennan?“

Robert Steen, borgarráðsfulltrúi heilbrigðismála, tók einnig til máls á fundinum og hvatti fólk til að beita heilbrigðri skynsemi í hvívetna. „Þarf ég nauðsynlega að hitta þennan eða þennan núna? Allir íbúar Óslóar ættu að spyrja sig þeirrar spurningar,“ sagði Steen og hvatti borgarbúa til að viðhafa ýtrustu aðgát í námunda við annað fólk.

Í morgun var tilkynnt um 138 nýsmit í Ósló næstliðinn sólarhring á undan, sem er töluvert minna en sólarhringinn þar á undan, en tæplega tvöfalt meira en á sama tíma fyrir viku. Eins og mbl.is greindi frá í gær áætlar Lýðheilsustofnun Noregs, FHI, að breska afbrigði veirunnar standi að baki 50 – 70 prósentum allra nýrra smittilfella í höfuðborginni.

NRK

VG

TV2

Dagbladet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert