Neyðarástandi lýst yfir í Finnlandi

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, greindi frá áætlunum ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi …
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, greindi frá áætlunum ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi fyrr í dag. AFP

Ríkisstjórn Finnlands hefur lýst yfir neyðarástandi vegna stöðu kórónuveirufaraldursins þar í landi. Til stendur að leggja fyrir finnska þingið frumvarp um hertar aðgerðir til að takmarka útbreiðslu faraldursins. Nýgengi smita hefur aukist skarpt síðustu vikur.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag þar sem Sanna Marin forsætisráðherra greindi frá stöðunni. Í síðustu viku boðaði hún að slíkar aðgerðir væru yfirvofandi, m.a. verður bannað að snæða á veitingastöðum í þrjár vikur frá 8. mars og þurfa staðir því annaðhvort að láta viðskiptavini sækja matinn eða senda hann til þeirra.

Stjórnarskrá Finnlands gerir ráð fyrir því að það þurfi að setja neyðarlög til þess að takmarka frelsi borgara með þessum hætti og ríkisstjórnin mun því leggja fram frumvarp um hertar aðgerðir fyrir þingið á næstu dögum.

Aðgangur að líkamsræktarstöðvum verður takmarkaður og söfn og sundlaugar verða áfram lokuð. Rúmlega 58 þúsund smit hafa komið upp í Finnlandi frá byrjun faraldurs og 750 hafa látið lífið.

Þrátt fyrir að neyðarástand veiti ríkisstjórninni ríkari heimildir til að herða á reglum sagði Marin að það stæði ekki til takmarka ferðir til og frá höfuðborginni Helsinki líkt og gert var í mars á síðasta ári. Hún útilokaði þó ekki að það yrði gert síðar ef það yrði „nauðsynlegt“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert