Þorgerður Anna skrifar frá Kaupmannahöfn
Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, er á leið til Ísraels ásamt Sebastian Kurz, forsætisráðherra Austurríkis. Þar stendur til að leiðtogarnir ræði við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, um samstarf í bóluefnamálum.
Fjallað hefur verið um væntanlegt ferðalag Frederiksen í dönskum fjölmiðlum í dag og hún gagnrýnd fyrir að ætla að leggja land undir fót þegar dönsk stjórnvöld hafi varað við utanlandsferðum, en Frederiksen segir erindi ferðarinnar svo mikilvægt að fjarfundur nægi ekki því samhengi. Bólusetningar gangi ekki nógu hratt og að Ísrael hafi augljóst forskot í þeim efnum.
Þá segir forsætisráðherrann hugsanlegt samstarf Dana og Austurríkismanna við Ísrael ekki brjóta gegn bóluefnasamkomulagi Evrópusambandsins. „Maður getur gert nýtt samkomulag þrátt fyrir að maður sé hluti af öðru,“ sagði Frederiksen á blaðamannafundi vegna málsins í dag.
Meðal þess sem er til skoðunar er að danska ríkið eignist hlut í bólefnisverksmiðju í Ísrael, að því er fram kom í svari Frederiksen í umræðum á danska þinginu í dag. Mikilvægast segir hún að framleiðslu bóluefnis verði hraðað.
Frederiksen og Kurz halda til Ísraels á fimmtudag.