Bólusetti fjölskylduna með eigin bóluefni

Winfried Stöcker er þekktur þýskur vísindamaður. Hann þróaði eigin bóluefni …
Winfried Stöcker er þekktur þýskur vísindamaður. Hann þróaði eigin bóluefni við Covid-19 og á nú dómsmál yfir höfði sér. Ljósmynd/Euroimmun

Saksóknari í Lübeck í norðanverðu Þýskalandi hefur stefnt þýskum vísindamanni að nafni Winfried Stöcker fyrir tilraunir hans á sjálfum sér og öðrum með bóluefni við Covid-19, sem hann þróaði sjálfur á tilraunastofu sinni.

Í viðtali við Der Spiegel segir Stöcker tæpitungulaust frá því hvernig hann þróaði bóluefni við veirunni snemma í faraldrinum síðasta vor og prófaði það í kjölfarið á sjálfum sér. Hann sprautaði því einnig í tæpa 100 enn, ýmist starfsfólk sitt á tilraunastofunni eða vini og vandamenn. 

Að hans sögn hafa 97% hinna bólusettu mælst með sterkt mótefni við veirunni eftir að hafa verið bólusettir. Þar að auki er bóluefnið þannig að hægt er að geyma það í hefðbundnum kæliskáp og sömuleiðis er auðveldara að flytja það en ýmist annað bóluefni. Vísindamaðurinn telur að hægt væri að bólusetja allt Þýskaland á tveimur eða þremur mánuðum með efninu ef hann fengi leyfi fyrir því.

Seldi stórt tæknifyrirtæki

Stöcker er gefið að sök að hafa „án tilskilins leyfis framleitt mótefni við SARS-CoV-2 og í kjölfarið bólusett sig og aðra án þess að hafa búið yfir nauðsynlegum heimildum til þess“. Þetta er vissulega rétt en óljóst er hvernig málaferlunum vindur fram. 

Sjálfur átti Stöcker stóra erfðatæknifyrirtækið Euroimmun þar til fyrir skemmstu, að hann seldi það fyrir milljarð evra. Síðan hefur hann fengist við rannsóknir á eigin stofu.

Hann harmar viðmót ráðamanna við Spiegel: „Í stað þess að hjálpa mér að búa til efni á grundvelli þessarar ánægjulegu niðurstöðu og þar með hjálpa mér að koma þessu á koppinn þá setja þau mér stólinn fyrir dyrnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert