Bandaríkin eru ekki lengur það ríki sem býr yfir stærsta flota herskipa eftir að áform Kínverja um að stækka flota sinn töluvert raungerðust. Á meðan stærð bandaríska flotans stóð nokkurn veginn í stað síðustu 20 árin þá rúmlega þrefaldaðist fjöldi kínverskra herskipa.
Þetta gerðist ekki yfir nóttu heldur hafa Kínverjar unnið leynt og ljóst að umtalsverðri stækkun flotans í áraraðir. Árið 2015 gerði Xi Jinping, forseti Kína, grein fyrir áformunum formlega þegar hann fyrirskipaði uppbyggingu skipasmíðastöðva og innleiðingu nýrrar tækni sem átti að gera Kínverjum kleift að framleiða öflugri skip á meiri hraða en áður.
Árið 2015 voru 255 herskip í flota Frelsishers Kína, PLAN, samkvæmt leyniþjónustu bandaríska sjóhersins (US Office of Naval Intelligence), ONI. Í lok ársins 2020 voru þau orðin 360 talsins á meðan bandaríski flotinn samanstendur af 297 skipum. Ef spá ONI gengur eftir verða herskip Kínverja orðin 400 talsins eftir fjögur ár.
„Floti Frelsishers Kína er nú þegar sá stærsti í heiminum og er að smíða kafbáta, flugmóðurskip, orrustuþotur, landgöngubáta, kjarnorkukafbáta og ísbrjóta á ógnvekjandi hraða,“ segir í nýlegri skýrslu sem yfirmenn í bandaríska sjóhernum, landgönguhernum og strandgæslu unnu að.