Bandaríska sóttvarnastofnunin (CDC) lýsti því yfir í gær að þeir sem eru bólusettir að fullu geti að hluta snúið aftur til eðlilegs lífs. Til að mynda sleppt grímunni og þurfa ekki að virða fjarlægðarmörk innandyra.
Þeir sem hafa fengið báða skammtana geta nú heimsótt aðra bólusetta og eins einhverja sem ekki eru bólusettir. Er hér miðað við tveimur vikum eftir seinni bólusetningu. Yfir 30 milljónir Bandaríkjamanna hafa fengið báða skammtana af bóluefni.
Þeir sem eru bólusettir eru lausir undan því að fara í sóttkví eða skimun vegna Covid-19 nema þeir finni fyrir einkennum sjúkdómsins. Þeir eru aftur á móti varaðir við því að ferðast að nauðsynjalausu og beðnir um að forðast margmenni. Eins er þeim gert að nota grímur á almannafæri og virða fjarlægðarmörk.