Fyrstu veiruvegabréfin gefin út

Kona skráir sig inn með rakningarforriti áður en hún gengur …
Kona skráir sig inn með rakningarforriti áður en hún gengur inn í bólusetningarmiðstöð í Kína. AFP

Kína hefur hleypt af stokkunum sérstökum heilbrigðisvottorðum vegna Covid-19 fyrir þá sem ferðast innanlands. Kína varð þannig fyrsta landið til að koma upp svokölluðum veiruvegabréfum fyrir borgara sína.

Vegabréfið, sem er stafrænt, sýnir bólusetningarstöðu eigandans og niðurstöður veiruprófa sem hann hefur farið í. Það er fáanlegt fyrir kínverska ríkisborgara í gegnum forrit á kínverska samfélagsmiðlinum WeChat. Kínverskum borgurum er ekki skylt að hlaða forritinu niður, í það minnsta ekki enn þá. 

Forritinu var hleypt af stokkunum í gær en tilgangur þess er að „stuðla að efnahagslegum bata á heimsvísu og auðvelda ferðalög yfir landamæri,“ sagði talsmaður utanríkisráðuneytisins. 

Evrópusambandið vinnur að sambærilegu vegabréfi

Vegabréfið, sem er einnig fáanlegt á pappírsformi, er talið vera fyrsta veiruvegabréfið sem fáanlegt er í heiminum. Bandaríkin og Bretland eru á meðal landa sem íhuga að innleiða svipuð vegabréf. 

Þá vinnur Evrópusambandið einnig að „grænu vegabréfi“ sem á að gera borgurum sambandsins kleift að ferðast á milli aðildarríkja og út fyrir sambandið. 

Kínverska forritið fylgist með ferðum notandans og sýnir grænan kóða, sem merkir góða heilsu, ef notandinn hefur ekki verið í nánu sambandi við smitaða eða ferðast til staða þar sem smit er útbreitt. 

Forritið hefur vakið upp áhyggjur um persónuvernd í Kína og óttast sumir að það marki aukið eftirlit kínverskra yfirvalda með þegnum landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert