Innlögnum fjölgar hratt í Noregi

AFP

Alls liggja 200 einstaklingar á sjúkrahúsum Noregs með Covid-19. Þetta er fjölgun um 23 sjúklinga á milli daga. Innlögnum hefur fjölgað hratt á há­skóla­sjúkra­hús­inu í Akers­hus (Ahus) undanfarna viku og sjúklingarnir eru yngri en í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins þar í landi. 

Af þeim sem eru á sjúkrahúsi með Covid-19 eru 25 í öndunarvél og er það fjölgun um tvo frá því í gær.

Frétt NRK

Flestir þeirra eru á sextugsaldri en einnig fjölmargir á fertugs- og fimmtugsaldri. Yngstu sjúklingarnir eru á þrítugsaldri. Þeir sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna Covid-19 í Noregi nú eru veikari en í fyrri bylgjum.

Af þeim 44 sem liggja á Ahus-sjúkrahúsinu vegna Covid-19 eru sjö á gjörgæsludeild. Fimm eru í öndunarvél. Jan Erik Berdal, yfirmaður smitsjúkdómadeildar sjúkrahússins, segir að algjör sprenging hafi orðið í innlögum í síðustu viku er um 10 voru lagðir inn á hverjum degi. Enginn þeirra er aldraður og þrír eru um þrítugt. 

Aðstoðarfor­stjóri Heil­brigðis­stofn­un­ar Nor­egs, Espen Rostrup Nakstad, segir þetta til vitnis um stöðuna í kórónuveirufaraldrinum. Innlögnum á sjúkrahús fjölgi í takt við fjölgun smita. Eins virðast stökkbreytt afbrigði valda alvarlegri veikindum meðal fólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert