Franskir þingmenn hafa kosið með nýjum lögum sem gera það ólöglegt að stunda samræði við börn yngri en 15 ára og samþykki verður ekki tekið gilt. Slíkt aldurstakmark hefur ekki verið í frönskum lögum hingað til. Þetta kemur fram á vef BBC.
Komist lögin í gegnum öldungadeildina, sem talið er líklegt, verður einnig ólöglegt að stunda samræði við ættingja undir 18 ára aldri.
Frumvarpið var samþykkt samhljóða af stjórnmálamönnum á þinginu í gærkvöldi. Ríkisstjórn Emmanuel Macron forseta hefur sagt að eftir endanlegt samþykki í vor vilji hún að frumvarpið öðlist hratt gildi.
„Enginn fullorðinn mun geta nýtt sér samþykki ólögráða barna,“ sagði Eric Dupond-Moretti dómsmálaráðherra á mánudag. „Við snertum ekki börn,“ bætti hann við.
Samkvæmt frönskum lögum, sem nú eru í gildi, geta börn á öllum aldri gefið samþykki fyrir samræði og öðrum kynferðismökum. Þar með talið í tilfellum þegar fullorðnir stunda kynmök við börn eða þegar ættmenni stunda kynmök.
Erfitt hefur reynst í Frakklandi að sanna ásakanir um nauðganir á börnum meðal annars vegna þess að lögin segja að börn yngri en 15 ára geti veitt samþykki. Með nýju lögunum verður með öllu ólöglegt að stunda samræði við börn yngri en 15 ára.
Einungis hefur verið hægt að sanna nauðgun ef valdi, ógn eða ofbeldi hefur verið beitt. Annars væri um að ræða kynferðislega áreitni, það sama hefur átt við um börn.