Ekkert bendi til orsakatengsla við blóðtappa

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP

Öryggisnefnd Lyfjastofnunar Evrópu segist vera fullviss um ávinning af bóluefni AstraZeneca þrátt fyrir fregnir um að bóluefnið auki líkur á blóðtappa. Ekkert bendir til þess að orsakatengsl séu á milli bóluefnisins og tilfelli blóðtappa hjá bólusettum. 

„Við erum áfram staðfastlega sannfærð um að ávinningur af bóluefni AstraZeneca í að koma í veg fyrir Covid-19 sem veldur innlögnum og andlátum, vegi meira en áhætta af þessum aukaverkunum,“ sagði Emer Cooke, forstjóri stofnunarinnar á blaðamannafundi í dag. 

„Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að bóluefni hafi valdið þessum tilfellum. Slík tilfelli hafa ekki komið upp í rannsóknum og eru ekki listuð upp sem þekktar eða mögulegar aukaverkanir,“ sagði Cooke. 

Öryggisnefndin fundaði í dag, líkt og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sem hefur áður hvatt þjóðir til þess að fresta ekki bólusetningu. 

Samkvæmt AstraZeneca hafa 37 tilfelli blóðtappa komið upp hjá þeim 17 milljónum Evrópubúa sem fengið hafa bóluefnið. Ákveðin tilfelli eru enn í rannsókn hjá Lyfjastofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Sérfræðingar telja að tilfellin stafi frekar af tilviljunum en bóluefninu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert