Átta manns, þar af minnsta kosti sex asískar konur, voru drepnir í skotárásum á þremur heilsulindum í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum í gær.
Að sögn lögreglu voru fjórir drepnir á nuddstofu í Acworth, úthverfi norður af Atlanta, og fjórir til viðbótar á tveimur heilsulindum í borginni sjálfri.
21 árs gamall maður, Robert Aaron Long, er í haldi lögreglu og er talið að hann hafi framið allar þrjár árásirnar. Ekki er vitað um tengsl hans við fólkið né heldur heilsulindirnar á þessari stundu.
Í frétt BBC kemur fram að hatursglæpir í garð Bandaríkjamanna af asískum uppruna hafi farið vaxandi undanfarna mánuði. Það sem hefur ýtt mjög undir hatrið eru ranghugmyndir um að Asíubúar beri ábyrgð á kórónuveirufaraldrinum. Að þeir hafi dreift Covid-19 um heimsbyggðina.
Í síðustu viku fordæmdi Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, svívirðilega hatursglæpi gegn Bandaríkjamönnum af asískum uppruna. Talaði hann um ofbeldi, áreitni, og að fólk væri ásakað og gert að blórabögglum. Talið er að árásin hafi beinst gegn fyrirtækjum í eigu Bandaríkjamanna af asískum uppruna.
Fyrsta árásin var gerð um klukkan 17, klukkan 21 að íslenskum tíma, á Youngs Asian-nuddstofunni í Acworth í Cherokee-sýslu. Talsmaður lögreglunnar, Jay Baker, segir að tvær manneskjur hafi látist á staðnum og þrjár verið fluttar á sjúkrahús þar sem tvær manneskjur til viðbótar létust. Hann staðfesti síðar að þau sem létust væru tvær asískar konur, hvít kona og hvítur karl. Sá sem væri særður væri af rómönskum uppruna.
Á heilsulindunum í Atlanta, Gold Massage Spa og Aroma Therapy, voru það allt konur af asískum uppruna sem voru drepnar.
Talsmaður lögreglunnar í Atlanta, John Chafee, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að miðað við þær upplýsingar sem koma fram í öryggismyndavélum sé nánast fullvíst að árásarmaðurinn sé sá sami á öllum stöðum. Long var handtekinn eftir stutta eftirför í um það bil 150 km fjarlægð frá Atlanta.
Árásirnar koma í kjölfar fjölda tilkynninga um árásir í garð fólks af asískum uppruna, einkum eldra fólks. Árásunum hefur fjölgað mjög síðustu mánuði og ásökunum fólks sem aðhyllist samsæriskenningar í tengslum við Covid-19, til að mynda Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem talaði um Kína-veiruna, um að Asíubúar beri ábyrgð á Covid-19.
Hryðjuverkadeild lögreglunnar í New York fylgist grannt með rannsókninni í Georgíu og biður íbúa í asískum hverfum borgarinnar að vera vel á verði þrátt fyrir að ekki sé vitað um nein tengsl borgarinnar við árásirnar.
Erfitt getur verið að festa hönd á hvaða ástæða liggi að baki árásum en rannsókn sem unnin var við CSU San Bernardino, Center for the Study of Hate and Extremism, sýnir að hatursglæpum gagnvart fólki af asískum uppruna fjölgaði mjög á síðasta ári, fóru úr 49 í 122 í 16 stærstu borgum Bandaríkjanna, þar á meðal New York og Los Angeles, á sama tíma og hatursglæpum fækkaði um 7%.
Tæplega hálf milljón íbúa Georgíu er ættuð frá Asíu eða rúm 4% íbúa ríkisins.