Myndir af herbílum hlöðnum líkkistum í ítalska bænum Bergamo snertu marga fyrir ári. Þetta var á fyrstu vikum kórónuveirufaraldursins en á hátindi faraldursins blessaði faðir Marco Bergamelli líkkistur á 10 mínútna fresti í borginni.
Hér voru líkkistur um allt að sögn Bergamelli. Alls voru kisturnar 132 talsins sem var raðað upp í kirkjunni við Monumentale-kirkjugarðinn. AFP-fréttastofan heimsótti Bergamo til að rifja upp hver staðan var fyrir ári.
„Í fyrstu komu flutningabílarnir að næturlagi og enginn átti að vita að kisturnar voru fluttar annað.“
Herbílarnir fluttu um 70 kistur á dag frá kirkjunni en þar var þeim safnað saman eftir að líkhúsin í borginni yfirfylltust. Þaðan voru líkkisturnar fluttar til annarra borga á Norður-Ítalíu, svo sem Bologna og Ferrara.
Mörg þeirra líka sem urðu eftir í Bergamo voru jarðsett í flýti, oft án þess að legsteinn væri settur upp en skilti sett upp með myndum og nöfnum þeirra látnu. Nánast allir í borginni misstu einhvern úr fjölskyldunni, vini, starfsfélaga eða nágranna. Alls búa um 120 þúsund manns í Bergamo.
Í mars í fyrra létust 670 íbúar borgarinnar og tæplega sex þúsund í samnefndu héraði. Fimm eða sex sinnum fleiri en í hefðbundnu árferði.
Fólk horfði á veika ástvini sína flutta á brott með sjúkrabílum og þeir sneru síðan aftur sem aska í duftkeri án þess að fólk gæti kvatt segir Bergamelli. „Þetta var eins og á stríðstímum.“
Forsætisráðherra Ítalíu, Mario Draghi, heimsótti Bergamo í dag til þess að minnast fórnarlamba farsóttarinnar sem hefur kostað 103.000 manns lífið á Ítalíu.
Þessi staður er tákn þjáningar þjóðarinnar allrar, sagði Draghi eftir að hafa lagt blómsveig að leiði í kirkjugarðinum og tekið þátt í mínútu langri þögn í minningu þeirra látnu.
Nú ári síðar eru borgarbúar á ný minntir á þær hörmungar sem hafa fylgt Covid-19. Vegna fjölgunar smita hefur enn á ný öllu verið skellt í lás í borginni. Á Seriate-sjúkrahúsinu í austurhluta Bergamo er gjörgæsludeildin á ný yfirfull af Covid-sjúklingum. Það eru færri þar en fyrir ári en deildin rúmar aðeins átta sjúklinga. Þeir eru allir með Covid.
Roberto Keim, yfirlæknir á gjörgæsludeildinni, segir að veiran sé aðgangsharðari nú þar sem margir eru með bráðsmitandi afbrigði hennar sem fyrst greindist í Bretlandi.
Margir borgarbúar gagnrýna yfirvöld fyrir að hafa oft seint gert sér grein fyrir alvarleika farsóttarinnar í fyrra. Hversu seint var gripið til viðeigandi ráðstafana til að stöðva fjölgun smita. Meðal annars með því að setja á samkomubann.
„Í byrjun mars horfðum við á fólk koma í útfarir fórnarlamba Covid og deyja síðan sjálft nokkrum vikum síðar,“ segir Roberta Caprini hjá Generli-útfararþjónustunni. Hún stóð ein uppi í útfararþjónustunni eftir að faðir hennar og frændi veiktust báðir af Covid-19. Þeir náðu báðir heilsu á ný. „Venjulega skipuleggjum við um 1.400 útfarir á ári. En í mars 2020 önnuðumst við 1.000,“ segir Caprini.
Til þess að gefa ættingjum í einangrun kost á að kveðja ættingja lét Caprini líkbílinn keyra fyrir neðan svalir viðkomandi og tók myndir af líkunum sjálf.
Luca Fusco er ein þeirra sem vissi ekkert um afdrif líkamsleifar ástvinar í langan tíma. Í marga mánuði vissum við ekkert hvar líkamsleifar föður míns voru segir Fusco en faðir hans lést á hjúkrunarheimili 11. mars í fyrra, 85 ára að aldri.
Stefnao, sonur Fusco, stofnaði Facebook-hóp þar sem réttlætis er krafist fyrir hönd þeirra látnu. Alls eru um 70 þúsund manns í hópnum.
Hópurinn Noi Denunceremo hefur þegar sent yfir 250 kvartanir til saksóknara vegna þess hvernig yfirvöld tóku á Covid-19. Rannsókn stendur yfir af hálfu dómstóla.
Fyrsta smitið kom upp í Bergamo 23. febrúar í fyrra og það tók yfirvöld tvær vikur að loka öllu í Lombardia-héraði. Daginn eftir var öllu skellt í lás í landinu öllu. Fusco segir að enginn hafi viljað láta loka öllu héraðinu sem sé lífæð hagkerfis Ítalíu. Ef yfirvöld hefðu gripið inn fyrr þá hefði verið hægt að bjarga þúsundum mannslífa. Þess í stað voru íbúar Bergamo skildir eftir með vandann.