„Ég á ekki pening fyrir mat“

Fjölmargt ungt fólk í Evrópu og Bandaríkjunum býr nú við …
Fjölmargt ungt fólk í Evrópu og Bandaríkjunum býr nú við annan veruleika en áður, hungur. AFP

Fjöl­marg­ar fjöl­skyld­ur og ekki síst ungt fólk í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um búa ekki leng­ur við fæðuör­yggi vegna efna­hagsþreng­inga af völd­um Covid-19. Lang­ar biðraðir eft­ir mat­araðstoð mynd­ast á hverj­um degi á stöðum þar sem náms­menn geta fengið fría máltíð. Í mörg­um til­vik­um er þetta eina máltíð dags­ins.

Fyrr í vik­unni fjallaði New York Times um þenn­an nýja veru­leika í lífi millj­óna íbúa ríkja sem hingað til hafa ekki verið þekkt fyr­ir mat­ar­skort. 

Mataraðstoð er í öllum helstu borgum og bæjum.
Mat­araðstoð er í öll­um helstu borg­um og bæj­um. AFP

Am­andine Chér­eau er 19 ára há­skóla­nemi í Par­ís. Hún var á hraðferð þegar blaðamaður NYT ræddi við hana. Leið henn­ar ligg­ur inn til borg­ar­inn­ar en hún býr í pínu­lít­illi íbúð í út­hverfi. Ferðalagið tek­ur klukku­tíma að matar­út­hlut­un stúd­enta við Bastill­una. Þegar hún kem­ur í röðina eru 500 aðrir að bíða eft­ir mat.

Spari­fé Chér­eau var upp­urið í sept­em­ber eft­ir að far­ald­ur­inn varð til þess að hún missti vinn­una en áður vann hún á veit­ingastað og gætti barna. Síðan í októ­ber hef­ur hún neyðst til þess að borða eina máltíð á dag og hef­ur lést um tæp tíu kíló á þess­um mánuðum.

„Ég á ekki pen­ing fyr­ir mat,“ seg­ir Chér­eau en faðir henn­ar sem aðstoðar hana við að greiða skóla­gjöld og leigu get­ur ekki leng­ur sent henni pen­ing því hann missti vinn­una. Í ág­úst var hon­um sagt upp starfi sem hann hafði unnið í 20 ár. Hún ótt­ast stöðuna og ekki síst hvað hlut­irn­ir ger­ast hratt.

Hópurinn sem þarf að leita á náðir matvælaastoðar hefur breyst.
Hóp­ur­inn sem þarf að leita á náðir mat­vælaastoðar hef­ur breyst. AFP

Mannúðarsam­tök í Evr­ópu vara við því nú þegar annað ár far­sótt­ar er að hefjast að fæðuör­yggi ungs fólks er í mik­illi hættu. Á sama tíma og heima­vist­um er lokað og sí­fellt fleir­um er gert að minnka við sig vinnu eða missa vinn­una.

Sí­fellt fleiri reiða sig á mat­araðstoð í Evr­ópu á sama tíma og hundruð millj­óna íbúa heims­ins tak­ast á við stig­vax­andi erfiðleika við að út­vega mat. Heim­ur­inn tekst á við að ná vopn­um sín­um eft­ir versta sam­drátt síðan í seinni heims­styrj­öld­inni og um leið eykst hung­ur í heim­in­um. 

Helm­ing­ur ungs fólks með tak­markaðan aðgang að mat

Í Banda­ríkj­un­um er mat­ar­skort­ur hjá einni af hverj­um átta fjöl­skyld­um. Fólk sem býr í ríkj­um þar sem hung­ur var fyr­ir býr við enn meiri hættu en áður. Í þró­un­ar­lönd­un­um búa 265 millj­ón­ir við fæðuóör­yggi, það eru tvö­falt fleiri en var fyr­ir heims­far­ald­ur­inn, sam­kvæmt töl­um Mat­væla­áætl­un­ar Sam­einuðu þjóðanna.

Frakk­land er næst­stærsta hag­kerfi í Evr­ópu en þar hef­ur nú helm­ing­ur ungs fólks tak­markaðan aðgang að mat. Tæp­lega fjórðung­ur slepp­ir að minnsta kosti einn máltíð á dag, sam­kvæmt töl­um frönsku hug­veit­unn­ar le Cercle des Économistes.

For­seti Frakk­lands, Emm­anu­el Macron, hef­ur ákveðið að grípa inn og er nú náms­mönn­um boðið upp á máltíð í mat­söl­um há­skóla á 1 evru. Þeir hafa aðgang að sál­rænni aðstoð og fjár­hagsaðstoð er í boði fyr­ir þá sem standa frammi fyr­ir veru­leg­um sam­drætti í tekj­um fjöl­skyld­unn­ar. 

Hjálp­ar­stofn­an­ir sem hingað til hafa sinnt flótta­mönn­um, fólki án fastr­ar bú­setu og fólki sem er und­ir fá­tækra­mörk­um hafa út­víkkað starf­semi sína til þess að geta mætt vax­andi neyð meðal ungs fólks. 

AFP

Ein stærsta mat­vælaaðstoð Frakk­lands, Resto du Coe­ur, er með 1.900 úti­bú og þar hef­ur ungu fólki fjölgað mjög. Nú eru um 40% þeirra sem mæta í biðröðina eft­ir mat ungt fólk, það er frá 18 ára til 25 ára. 

Yfir átta millj­ón­ir fengu aðstoð hjá slíkri mat­vælaaðstoð í Frakklandi í fyrra. Árið á und­an voru það 5,5 millj­ón­ir.

Þrátt fyr­ir að franska rík­is­stjórn­in styðji við máltíðir á há­skóla­svæðunum út­veg­ar hún ekki mat­væl­in og þar sem fjöldi nem­enda sem þarf á aðstoð að halda vex stöðugt hafa há­skól­arn­ir þurft að leita eft­ir aðstoð hjálp­ar­stofn­ana til að sefa hung­ur náms­manna. 

Ungt fólk sem áður gat reitt sig á vinnu með skóla, svo sem á veit­inga­stöðum, ferðaþjón­ustu og fleir­um at­vinnu­grein­um sem hafa orðið illa úti, stend­ur uppi at­vinnu­laust. Tveir af hverj­um þrem­ur hafa misst vinn­una sem áður gerði þeim fært að láta enda ná sam­an. 

AFP

7.500 krón­ur fyr­ir mat í mánuð

„Við verðum að vinna en við fáum enga vinnu,“ seg­ir Iver­son Rozas, 23 ára tungu­mála­nem­andi við Sor­bonne í Par­ís. Hann starfaði áður fimm kvöld í viku á veit­ingastað en nú er búið að skera það niður í eitt kvöld í viku. Það þýðir að hann hef­ur 50 evr­ur til að eyða í mat í hverj­um mánuði. Það eru 7.500 krón­ur. Hann hef­ur leitað eft­ir aðstoð Lin­kee-mat­vælaaðstoðar­inn­ar og þar bíða þúsund­ir náms­manna í röð eft­ir matar­út­hlut­un. 

Chér­eau fékk áður 500 evr­ur í aðstoð frá fjöl­skyld­unni á mánuði til að mæta út­gjöld­um eins og skóla­gjöld­um og leigu. Þegar pabbi henn­ar missti vinn­una og hún sjálf var mamma henn­ar sett á hluta­bæt­ur sem þýddi að tekj­ur henn­ar dróg­ust sam­an um rúm­lega 20%. Þegar spari­féð kláraðist tók Chér­eau lán sem núna eru kom­in í van­skil. Hún á ekki fyr­ir mat og það eina sem hún fær að borða er það sem hún fær út­hlutað hjá mat­araðstoðinni. Þess á milli lif­ir hún á vatni. „Þetta var erfitt í fyrstu,“ seg­ir hún og bæt­ir við: en ég hef van­ist þessu. New York Times seg­ir að einn­ar evru máltíðirn­ar séu svo eft­ir­sótt­ar að í Renn­es þurfi fólk að bíða leng­ur en klukku­tíma í biðröð. Þeir náms­menn sem eiga að mæta í tíma á net­inu geta ekki beðið svo lengi. Aðrir búa of langt í burtu. 

Mat­araðstoðin sem Chér­eau sæk­ir við Bastill­una, Co’p1/​Soli­da­rités Étudi­an­tes, var sett á lagg­irn­ar af sex náms­mönn­um við Sor­bonne sem ákváðu að taka hönd­um sam­an þegar þeir sáu sí­fellt fleiri skóla­fé­laga svelta. Embætti borg­ar­stjóra og Rauði kross­inn veita aðstoð og eins fá þeir mat­ar­send­ing­ar frá mat­væla­fyr­ir­tækj­um eins og Dano­ne og stór­mörkuðum. Nú starfa um 250 náms­menn við aðstoðina en þar er hægt að fá pasta, morgun­korn, brauð, mjólk, gos, græn­meti og hrein­lætis­vör­ur. Þau eiga nóg fyr­ir þúsund nem­end­ur en það er bara ekki nóg. Þörf­in er fimm­falt meiri. Pláss í röðinni er bókað á net­inu og það tek­ur aðeins þrjár klukku­stund­ir að fylla það. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert