Fjölmargar fjölskyldur og ekki síst ungt fólk í Evrópu og Bandaríkjunum búa ekki lengur við fæðuöryggi vegna efnahagsþrenginga af völdum Covid-19. Langar biðraðir eftir mataraðstoð myndast á hverjum degi á stöðum þar sem námsmenn geta fengið fría máltíð. Í mörgum tilvikum er þetta eina máltíð dagsins.
Fyrr í vikunni fjallaði New York Times um þennan nýja veruleika í lífi milljóna íbúa ríkja sem hingað til hafa ekki verið þekkt fyrir matarskort.
Amandine Chéreau er 19 ára háskólanemi í París. Hún var á hraðferð þegar blaðamaður NYT ræddi við hana. Leið hennar liggur inn til borgarinnar en hún býr í pínulítilli íbúð í úthverfi. Ferðalagið tekur klukkutíma að matarúthlutun stúdenta við Bastilluna. Þegar hún kemur í röðina eru 500 aðrir að bíða eftir mat.
Sparifé Chéreau var uppurið í september eftir að faraldurinn varð til þess að hún missti vinnuna en áður vann hún á veitingastað og gætti barna. Síðan í október hefur hún neyðst til þess að borða eina máltíð á dag og hefur lést um tæp tíu kíló á þessum mánuðum.
„Ég á ekki pening fyrir mat,“ segir Chéreau en faðir hennar sem aðstoðar hana við að greiða skólagjöld og leigu getur ekki lengur sent henni pening því hann missti vinnuna. Í ágúst var honum sagt upp starfi sem hann hafði unnið í 20 ár. Hún óttast stöðuna og ekki síst hvað hlutirnir gerast hratt.
Mannúðarsamtök í Evrópu vara við því nú þegar annað ár farsóttar er að hefjast að fæðuöryggi ungs fólks er í mikilli hættu. Á sama tíma og heimavistum er lokað og sífellt fleirum er gert að minnka við sig vinnu eða missa vinnuna.
Sífellt fleiri reiða sig á mataraðstoð í Evrópu á sama tíma og hundruð milljóna íbúa heimsins takast á við stigvaxandi erfiðleika við að útvega mat. Heimurinn tekst á við að ná vopnum sínum eftir versta samdrátt síðan í seinni heimsstyrjöldinni og um leið eykst hungur í heiminum.
Í Bandaríkjunum er matarskortur hjá einni af hverjum átta fjölskyldum. Fólk sem býr í ríkjum þar sem hungur var fyrir býr við enn meiri hættu en áður. Í þróunarlöndunum búa 265 milljónir við fæðuóöryggi, það eru tvöfalt fleiri en var fyrir heimsfaraldurinn, samkvæmt tölum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna.
Frakkland er næststærsta hagkerfi í Evrópu en þar hefur nú helmingur ungs fólks takmarkaðan aðgang að mat. Tæplega fjórðungur sleppir að minnsta kosti einn máltíð á dag, samkvæmt tölum frönsku hugveitunnar le Cercle des Économistes.
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur ákveðið að grípa inn og er nú námsmönnum boðið upp á máltíð í matsölum háskóla á 1 evru. Þeir hafa aðgang að sálrænni aðstoð og fjárhagsaðstoð er í boði fyrir þá sem standa frammi fyrir verulegum samdrætti í tekjum fjölskyldunnar.
Hjálparstofnanir sem hingað til hafa sinnt flóttamönnum, fólki án fastrar búsetu og fólki sem er undir fátækramörkum hafa útvíkkað starfsemi sína til þess að geta mætt vaxandi neyð meðal ungs fólks.
Ein stærsta matvælaaðstoð Frakklands, Resto du Coeur, er með 1.900 útibú og þar hefur ungu fólki fjölgað mjög. Nú eru um 40% þeirra sem mæta í biðröðina eftir mat ungt fólk, það er frá 18 ára til 25 ára.
Yfir átta milljónir fengu aðstoð hjá slíkri matvælaaðstoð í Frakklandi í fyrra. Árið á undan voru það 5,5 milljónir.
Þrátt fyrir að franska ríkisstjórnin styðji við máltíðir á háskólasvæðunum útvegar hún ekki matvælin og þar sem fjöldi nemenda sem þarf á aðstoð að halda vex stöðugt hafa háskólarnir þurft að leita eftir aðstoð hjálparstofnana til að sefa hungur námsmanna.
Ungt fólk sem áður gat reitt sig á vinnu með skóla, svo sem á veitingastöðum, ferðaþjónustu og fleirum atvinnugreinum sem hafa orðið illa úti, stendur uppi atvinnulaust. Tveir af hverjum þremur hafa misst vinnuna sem áður gerði þeim fært að láta enda ná saman.
„Við verðum að vinna en við fáum enga vinnu,“ segir Iverson Rozas, 23 ára tungumálanemandi við Sorbonne í París. Hann starfaði áður fimm kvöld í viku á veitingastað en nú er búið að skera það niður í eitt kvöld í viku. Það þýðir að hann hefur 50 evrur til að eyða í mat í hverjum mánuði. Það eru 7.500 krónur. Hann hefur leitað eftir aðstoð Linkee-matvælaaðstoðarinnar og þar bíða þúsundir námsmanna í röð eftir matarúthlutun.
Chéreau fékk áður 500 evrur í aðstoð frá fjölskyldunni á mánuði til að mæta útgjöldum eins og skólagjöldum og leigu. Þegar pabbi hennar missti vinnuna og hún sjálf var mamma hennar sett á hlutabætur sem þýddi að tekjur hennar drógust saman um rúmlega 20%. Þegar spariféð kláraðist tók Chéreau lán sem núna eru komin í vanskil. Hún á ekki fyrir mat og það eina sem hún fær að borða er það sem hún fær úthlutað hjá mataraðstoðinni. Þess á milli lifir hún á vatni. „Þetta var erfitt í fyrstu,“ segir hún og bætir við: en ég hef vanist þessu. New York Times segir að einnar evru máltíðirnar séu svo eftirsóttar að í Rennes þurfi fólk að bíða lengur en klukkutíma í biðröð. Þeir námsmenn sem eiga að mæta í tíma á netinu geta ekki beðið svo lengi. Aðrir búa of langt í burtu.
Mataraðstoðin sem Chéreau sækir við Bastilluna, Co’p1/Solidarités Étudiantes, var sett á laggirnar af sex námsmönnum við Sorbonne sem ákváðu að taka höndum saman þegar þeir sáu sífellt fleiri skólafélaga svelta. Embætti borgarstjóra og Rauði krossinn veita aðstoð og eins fá þeir matarsendingar frá matvælafyrirtækjum eins og Danone og stórmörkuðum. Nú starfa um 250 námsmenn við aðstoðina en þar er hægt að fá pasta, morgunkorn, brauð, mjólk, gos, grænmeti og hreinlætisvörur. Þau eiga nóg fyrir þúsund nemendur en það er bara ekki nóg. Þörfin er fimmfalt meiri. Pláss í röðinni er bókað á netinu og það tekur aðeins þrjár klukkustundir að fylla það.