Ríflega helmingur ísraelsku þjóðarinnar hefur fengið fulla bólusetningu gegn Covid-19, að sögn Yuli Edelstein, heilbrigðisráðherra landsins. Hann segir að 50,07% þjóðarinnar hafi fengið fulla bólusetningu en 55,96% hafa fengið í það minnsta einn skammt. Tvo skammta þarf af flestum bóluefnum gegn Covid-19 til þess að fólk öðlist fulla bólusetningu.
Að auki hafa 8,7% þjóðarinnar þegar smitast af Covid-19. Eins og bólusettir fá þeir sem hafa smitast svokallaðan grænan passa sem leyfa hinum bólusettu og þeim sem hafa áður sýkst ýmislegt fleira en þeim sem hvorki hafa komist í tæri við veiruna né bóluefni.
Stjórnvöld í Ísrael hafa verið gagnrýnd á alþjóðavettvangi fyrir að gera ekki meira til þess að auðvelda Palestínumönnum að komast í bóluefni. Ísraelsk stjórnvöld hafa sagt að Palestínumenn séu ábyrgir fyrir að standa að bólusetningu á sjálfsstjórnarsvæðum sínum.
Ísrael er það land sem stendur fremst hvað bólusetningu gegn Covid-19 varðar. Sameinuðu arabísku furstadæmin standa einnig mjög vel í þeim efnum sem og Chile, Bretland og Bandaríkin.