Ný kosningalög í Georgíuríki harðlega gagnrýnd

Joe Biden Bandaríkjaforseti á leiðinni í forsetaflugvélina.
Joe Biden Bandaríkjaforseti á leiðinni í forsetaflugvélina. AFP

Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum hefur verið harðlega gagnrýndur og sakaður um rasisma vegna áforma um að herða kosningareglur víðs vegar um landið eftir að flokkurinn missti Hvíta húsið og tveir repúblikanar misstu sæti í öldungadeildinni til demókrata.

„Sjúkt ... andstyggilegt,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti á fimmtudag eftir að repúblikanar í Georgíu komu í gegn nýjum lögum í ríkinu. Þar kemur meðal annars fram að sjálfboðaliðar mega ekki láta fólk á leiðinni á kjörstað hafa vatnsflöskur er það bíður í röð í margar klukkustundir eftir því að komast að.

Einnig eru í lögunum ný skilyrði þegar kemur að utankjörfundaratkvæðum og takmörkun á notkun sérstakra atkvæðakassa sem gera fólki auðveldara fyrir að greiða atkvæði.  

Biden sigraði repúblikanann Donald Trump í Georgíu og var það í fyrsta sinn í næstum þrjá áratugi sem demókrati vinnur í ríkinu. Þar að auki sigruðu demókratarnir Jon Ossoff og Raphael Warnock tvo repúblikana í baráttu um sæti í öldungadeildinni.

Trump hélt því ranglega fram að hann hefði tapað kosningunum í Georgíu vegna kosningasvika. Þrátt fyrir að æðsti embættismaður ríkisins þegar kemur að kosningamálum, sem er repúblikani, hafi vísað fullyrðingum Trumps á bug undirritaði Brian Kemp, ríkisstjóri Georgíu, nýju lögin og sagði að þau myndu leiða til „öruggari, aðgengilegri og sanngjarnari“ kosninga.

„Árás á stjórnarskrána“

Demókratar í Georgíu, auk Bidens, segja að með lögunum sé verið að innleiða á nýjan leik „Jim Crow“-lögin fá seinnihluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar sem komu í veg fyrir pólitískan og efnahagslegan framgang svartra Bandaríkjamanna.

„Fleiri Bandaríkjamenn greiddu atkvæði í kosningunum árið 2020 en í nokkrum öðrum kosningum í sögu landsins,“ sagði Biden í yfirlýsingu í gær.

„Þessi lög, eins og svo mörg önnur sem repúblikanar standa á bak við víðs vegar um landið, eru grímulaus árás á stjórnarskrána og góða samvisku.“

Stacey Abrams.
Stacey Abrams. AFP

Stacey Abrams, sem átti stóran þátt í að hvetja svarta Bandaríkjamenn til að mæta á kjörstað í Georgíu en tapaði í baráttunni um ríkisstjóra árið 2018, sagði að lögin væru „ekkert annað en Jim Crow 2.0“.

„Það að bæla hlutina niður er leið hins lata til að vinna kosningar,“ sagði hún. „Ef þú getur ekki unnið á heiðarlegan hátt, ýttu fólki í burtu og breyttu reglunum.“

Georgía er eitt af að minnsta kosti 40 til 50 ríkjum þar sem repúblikanar hafa reynt að setja ný lög sem gera fólki erfiðara fyrir að kjósa og hafa sérfræðingar sagt að þau hafi áhrif á fólk sem er fátækara, þar á meðal svarta, sem er líklegra en aðrir til að kjósa demókrata.

Hér má lesa umfjöllun BBC um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert