Möguleiki er á að níu mánuðir eða færri líði áður en fyrstu bóluefnin gegn Covid-19 hætta að virka sem skyldi og þörf er á breytingum á þeim. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem var gerð á meðal sóttvarnalækna, veirufræðinga og sérfræðinga í smitsjúkdómum sem Guardian greinir frá.
77 vísindamenn frá 28 löndum svöruðu könnuninni sem Alþýðubólusetningarsamtökin lögðu fram. Að samtökunum standa m.a. Amnesty International, Oxfam og Unaids. Næstum þriðjungur svarenda telur að líklega líði níu eða færri mánuðir áður en þau bóluefni sem nú eru í umferð hætti að virka gegn veirunni.
Vísindamenn hafa lengi lagt áherslu á að alþjóðlegt bólusetningarátak sé nauðsynlegt til þess að binda enda á heimsfaraldur kórónuveiru. Er það sérstaklega vegna stökkbreytinga veirunnar, afbrigða sem eiga auðveldara með að smitast á milli manna.
Viðvarandi lítil bólusetning í mörgum löndum gerir líkurnar á stökkbreytingum sem bóluefnin virka ekki gegn líklegri, að sögn 88% aðspurðra. Svarendur starfa t.a.m. hjá Johns Hopkins, Yale, Imperial College, London School of Hygine & Tropical Mdeicine og háskólanum í Edinborg.
„Nýjar stökkbreytingar finnast á hverjum einasta degi. Stundum eru þær hæfari en forverar þeirra. Þessi heppnu afbrigði gætu smitast á skilvirkari hátt og hugsanlega komist fram hjá ónæmissvörun við fyrri afbrigðum,“ sagði Gregg Gonsalves, dósent í faraldsfræði við Yale-háskóla, í yfirlýsingu.
„Ef við bólusetjum ekki heiminn skiljum við eftir aðstæður sem leyfa stökkbreytingum, sem gætu valdið afbrigðum sem gætu forðast núverandi bóluefni, að myndast.“