Lyfjastofnun Evrópu ósammála íslenskum yfirvöldum

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP

Lyfjastofnun Evrópu segir engin gögn styðja takmörkun á notkun bóluefnis AstraZeneca gegn Covid-19. Notkun þess hefur verið takmörkuð hér á landi við fólk sem er 70 ára og eldra.

Fréttastofa Reuters greinir frá því að Lyfjastofnun Evrópu hafi enn ekki borið kennsl á neina áhættuþætti hvað AstraZeneca varðar, svo sem aldur, kyn eða fyrri sögu af blóðtappamyndun.

Hlé var gert á notkun bóluefnisins víða í Evrópu eftir að áhyggjur af því að bóluefnið gæti valdið blóðtappa vöknuðu. Í síðustu viku var notkun þess hafin aftur hérlendis en einungis fyrir fólk sem er 70 ára og eldra.

Emer Cooke, forstjóri Lyfjastofnunar Evrópu, telur að einnig eigi að …
Emer Cooke, forstjóri Lyfjastofnunar Evrópu, telur að einnig eigi að nota bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 í yngri aldurshópum. AFP

Ávinningurinn mun meiri en áhættan

Í nokkrum öðrum Evrópulöndum hefur notkun bóluefnisins einnig verið takmörkuð við eldra fólk. Þannig hefur notkunin t.d. verið takmörkuð við 60 ára og eldri í Þýskalandi en 55 ára og eldri í Kanada. Þá hafa Norðmenn ákveðið að hvíla notkun bóluefnisins til 15. apríl nk. vegna rannsókna sem nú eru framkvæmdar á mögulegum tengslum bólu­efn­is­ins og blóðtappa. Hlé á notkun bóluefnisins í Danmörku stendur einnig enn yfir.

Emer Cooke, forstjóri Lyfjastofnunar Evrópu, sagði í dag að það væru „engin sönnunargögn“ sem styddu ákvarðanir um takmörkun á notkun bóluefnisins. 

Stofnunin segir ávinning af notkun bóluefnisins meiri en áhættuna, en benti á að fólk ætti að gera sér grein fyrir mjög takmörkuðum möguleika á blóðtöppum. Ef einkenni þeirra koma upp þarf fólk að sækja sér læknisaðstoðar um leið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert