Navalní í hungurverkfalli

Alexei Navalní við réttarhöldin yfir honum.
Alexei Navalní við réttarhöldin yfir honum. AFP

Al­ex­ei Navalní, stjórn­ar­and­stæðing­ur rúss­neskra stjórn­valda og blaðamaður, er byrjaður í hung­ur­verk­falli í fang­els­inu þar sem hann afplán­ar tveggja og hálfs árs fang­els­is­dóm sinn. Verk­fallið á að standa yfir þangað til hann fær al­menni­lega lækn­isaðstoð vegna verkja í baki og dofa í fót­leggj­um.

Navalní hef­ur lengi verið einn há­vær­asti and­stæðing­ur stjórn­valda og Vla­dimír Pútíns Rúss­lands­for­seta. Hann er sagður vera með klemmda taug sem olli því að hann hætti að finna fyr­ir hægri fæti og er byrjaður að missa til­finn­ingu vinstra meg­in líka.

Þá er hann einnig með mikla bak­verki. Hann seg­ist hafa fengið verkjalyf en enga viðeig­andi lækn­isþjón­ustu. 

„Ég hef hafið hung­ur­verk­fall til að krefjast þess að lög­um verði fylgt og lækn­ir fái að skoða mig,“ sagði Navalní í færslu á In­sta­gram í dag.

Hann hef­ur einnig sakað fanga­verði um slæma meðferð og hrein­lega pynd­ing­ar. Kveðst hann vera vak­inn allt að átta sinn­um á hverri nóttu af fanga­vörðum sem mynda hann og segja hon­um að hann sé enn þá í fang­elsi. 

Navalní var hand­tek­inn í janú­ar við kom­una til Rúss­lands frá Þýskalandi þar sem hann fékk lækn­isaðstoð vegna al­var­legra kvilla eft­ir að eitrað var fyr­ir hon­um með tauga­eitr­inu Novichok.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert