Alexei Navalní, stjórnarandstæðingur rússneskra stjórnvalda og blaðamaður, er byrjaður í hungurverkfalli í fangelsinu þar sem hann afplánar tveggja og hálfs árs fangelsisdóm sinn. Verkfallið á að standa yfir þangað til hann fær almennilega læknisaðstoð vegna verkja í baki og dofa í fótleggjum.
Navalní hefur lengi verið einn háværasti andstæðingur stjórnvalda og Vladimír Pútíns Rússlandsforseta. Hann er sagður vera með klemmda taug sem olli því að hann hætti að finna fyrir hægri fæti og er byrjaður að missa tilfinningu vinstra megin líka.
Þá er hann einnig með mikla bakverki. Hann segist hafa fengið verkjalyf en enga viðeigandi læknisþjónustu.
„Ég hef hafið hungurverkfall til að krefjast þess að lögum verði fylgt og læknir fái að skoða mig,“ sagði Navalní í færslu á Instagram í dag.
Hann hefur einnig sakað fangaverði um slæma meðferð og hreinlega pyndingar. Kveðst hann vera vakinn allt að átta sinnum á hverri nóttu af fangavörðum sem mynda hann og segja honum að hann sé enn þá í fangelsi.
Navalní var handtekinn í janúar við komuna til Rússlands frá Þýskalandi þar sem hann fékk læknisaðstoð vegna alvarlegra kvilla eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu Novichok.