Útilokar ekki að veiran hafi borist úr tilraunastofu

Tedros Ghebreyesus hefur opnað aftur á vangaveltur um uppruna veirunnar …
Tedros Ghebreyesus hefur opnað aftur á vangaveltur um uppruna veirunnar og kallar eftir bættri samvinnu kínverskra stjórnvalda við rannsóknir þess efnis. AFP

Forseti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur sett aukinn þrýsting á Kína um að deila gögnum með stofnuninni og segir að þrátt fyrir að vísindamenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að afar ólíklegt væri að kórónuveiran hafi borist úr kínverskri rannsóknarstofu þurfi að rannsaka það frekar, enda hafi kínversk stjórnvöld ekki verið sérlega samvinnuþýð við framkvæmd rannsóknarinnar.

Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um upptök kórónuveirunnar er líklegast að veiran hafi borist úr leðurblökum í annan hýsil og þaðan yfir í menn. Afar ólíklegt væri að veiran hafi borist úr rannsóknarstofu í Wuhan.

Kínversk stjórnvöld tóku skýrslunni fagnandi, en nú hefur Tedros Ghebreyesus hins vegar opnað aftur á vangaveltur um uppruna veirunnar. 

„Í samtölum mínum við rannsóknarteymið hefur athygli mín verið vakin á erfiðleikunum sem þeir áttu í við að fá aðgang að hráum gögnum,“ segir Ghebreyesus, og að þrátt fyrir að leki úr rannsóknarstofu hafi verið metinn ólíklegasti uppruni kórónuveirunnar þurfi að kanna þann möguleika nánar. „Ég held ekki að þessi rannsókn hafi verið nógu víðtæk.“

Kveðst Ghebreyesus reiðubúinn að senda fleiri sérfræðinga á svæðið og að engin tilgáta um uppruna veirunnar hafi verið slegin af borðinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert