Nýtt útgöngubann í Frakklandi

Macron tilkynnti um útgöngubannið í gærkvöldi.
Macron tilkynnti um útgöngubannið í gærkvöldi. AFP

Fjögurra vikna útgöngubann hefur tekið gildi í Frakklandi. Emmanuel Macron forseti tilkynnti bannið í gærkvöldi en gripið er til þess enn á ný til að stemma stigu við fjölgun kórónuveirutilfella í landinu.

„Við gerðum allt sem við gátum til að tefja þessa ráðstöfun, allt þar til hún varð bráðnauðsynleg. Það er núna,“ sagði Macron þegar hann ávarpaði þjóðina í sjónvarpi.

Ákvörðunin markar enda nokkra stefnubreytingu hjá forsetanum sem hafði áður forðast annað útgöngubann á landsvísu eins og heitan eldinn og fremur kosið staðbundnar aðgerðir byggðar á stöðu faraldursins í hverju héraði fyrir sig.

Bannið tók gildi í dag, laugardag, en takmarkanir verða þó nokkru slakari yfir páskahelgina og gera það að verkum að fólk mun geta ferðast milli héraða.

Fjármálaráðuneyti landsins gerir ráð fyrir að kostnaður við kórónuveiruaðgerðir stjórnvalda, að teknu tilliti til stuðningsaðgerða við einstaklinga og fyrirtæki, muni ná 11 milljörðum evra (1.660 mö.kr.) í kjölfar nýs útgöngubanns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert