Fólki undir þrítugu í Bretlandi verður boðin bólusetning með öðru bóluefni en bóluefni AstraZeneca vegna hættu á blóðtappa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðgjafateymi bresku ríkisstjórnarinnar um kórónuveirufaraldurinn. BBC greinir frá.
Í Bretlandi hafa 79 manns fengið blóðtappa eftir að hafa þegið bóluefni AstraZeneca og þar af hafa 19 látist. Breska lyfjaeftirlitið segir samt sem áður að þetta sé ekki sönnun þess að bóluefni AstraZeneca valdi blóðtappa. Hins vegar segir lyfjaeftirlitið að sífellt meira bendi til þess að tengsl séu þar á milli.
Dr. June Raine hjá lyfjaeftirlitinu segir að aukaverkanirnar séu gríðarlega sjaldgæfar og verið sé að komast til botns í því hvort bóluefni AstraZeneca sé raunverulega það sem veldur blóðtappa.
Hún segir einnig að eins og sakir standa séu kostir þess að bólusetja stóran hóp fólks með bóluefni AstraZeneca mun meiri en áhættan af hinu sama. Hins vegar sé munurinn á milli kosta og galla mun minni hjá ungu fólki.
Breska lyfjaeftirlitið segir jafnframt að þeir sem þegið hafa fyrri skammt af bóluefni AstraZeneca geti fengið sinn seinni skammt, en þeir sem fengið hafa blóðtappa eftir að hafa þegið fyrsta skammtinn ættu ekki að fá seinni skammtinn.