Indverjar náðu þeim vafasama heiðri í dag að fara fram úr Brasilíu þegar kemur að fjölda kórónuveirusmita. Alls voru greind 168 þúsund ný smit á Indlandi í gær. Íbúar Indlands eru 1,3 milljarðar talsins. Þar hafa 13,5 milljónir smitast af Covid-19 svo vitað sé. Í Brasilíu eru staðfest smit 13,48 milljónir. Flest staðfest smit eru aftur á móti í Bandaríkjunum.
Sérfræðingar hafa varað við því að líkur séu á að nýjum smitum muni fjölga áfram á Indlandi þar sem fjölmennar samkomur hafa verið haldnar í tengslum við kosningabaráttu í einstökum ríkjum. Margir séu þar grímulausir líkt og á fjölmennum trúarsamkomum.
Síðustu sjö daga hafa verið staðfest 873 þúsund smit á Indlandi sem er 70% aukning á milli vikna. Til samanburðar voru staðfest á sama tíma 497 þúsund smit í Brasilíu sem er 9% aukning á milli vikna. Í Bandaríkjunum voru tæplega 490 þúsund ný smit staðfest í síðustu viku sem er 10% aukning.