Í Færeyjum er lífið næstum eðlilegt

Frá Ólafsvöku fyrir allnokkrum árum. Hinar ýmsu útihátíðir eru snar …
Frá Ólafsvöku fyrir allnokkrum árum. Hinar ýmsu útihátíðir eru snar þáttur í sumrinu í Færeyjum og vonast menn til að hægt verði að halda þær í sem eðlilegastri mynd í sumar. mbl.is/RAX

Ekk­ert inn­an­lands­smit kór­ónu­veirunn­ar hef­ur greinst í Fær­eyj­um í meira en mánuð. Fyr­ir vikið búa Fær­ey­ing­ar við sem næst eðli­legt líf; flestallt er opið og allt að 500 manns mega koma sam­an. Lands­menn gera sér von­ir um að hægt verði að halda enn fjöl­menn­ari hátíðir í sum­ar.

Fær­eyj­ar eru ekki á korti Evr­ópsku sótt­varna­stofn­un­ar­inn­ar, enda ekki í EES, en ef þær væru það væru þær æp­andi græn­ar.

Íslend­ing­ar í Fær­eyj­um, sem mbl.is hef­ur rætt við, eru að von­um ánægðir með stöðuna, en óska þess að þeir nytu góðs af því á Íslandi. Ekki hef­ur verið flogið milli Íslands og Fær­eyja síðan í haust eða síðan regl­ur um tvö­falda sýna­töku á landa­mær­un­um og 4-6 daga sótt­kí tóku gildi.

„Það eru eng­ir Fær­ey­ing­ar sem ferðast til Íslands til að taka sex daga sótt­kví á Íslandi,“ seg­ir Sól­rún Ásta Har­alds­dótt­ir. Því hafi ekki verið rekstr­ar­grund­völl­ur fyr­ir Íslands­flug­inu og þeir Íslend­ing­ar sem vilja ferðast heim þurfa annaðhvort að fljúga gegn­um Dan­mörku eða taka Nor­rænu með til­heyr­andi tíma og kostnaði. Að ógleymdri sótt­kvínni.

„Við erum orðin dá­lítið pirruð á öll­um túrist­un­um sem eru heima að sjá eld­gosið á meðan við kom­umst ekki nema í gegn­um Dan­mörku,“ seg­ir Sól­rún, sem hef­ur búið í Fær­eyj­um í sjö ár, en hún hef­ur ekki farið til Íslands síðan jól­in 2019. Hún seg­ir mikla umræðu meðal Íslend­inga­sam­fé­lags­ins í land­inu um hvort ekki sé hægt að veita Fær­eyj­um und­anþágu vegna góðrar stöðu.

Það horf­ir þó til betri veg­ar fyr­ir Íslend­inga í Fær­eyj­um því að óbreyttu verður sér­stakt litakóðun­ar­kerfi tekið upp á landa­mær­un­um 1. maí og verða farþegar frá „græn­um lönd­um“ þá und­anþegn­ir sótt­kví. Sú breyt­ing hef­ur þó mælst mis­vel fyr­ir.

Sótt­varn­a­regl­ur sem gilda munu fyr­ir ólík lönd frá 1. maí, …
Sótt­varn­a­regl­ur sem gilda munu fyr­ir ólík lönd frá 1. maí, að öllu óbreyttu. Skjá­skot/​Stjórn­ar­ráðið

Eitt and­lát

Aðeins hafa 662 smit greinst í eyj­un­um frá því far­ald­ur­inn hófst, sem er nokkru minna en á Íslandi miðað við höfðatölu. Og það sem meira er; aðeins einn hef­ur lát­ist af völd­um veirunn­ar.

Rétt eins og á Íslandi þarf fólk við kom­una til lands­ins að fara í um fimm daga sótt­kví, með skimun í upp­hafi og lok sótt­kví­ar.

Þó er hugs­an­legt að Fær­ey­ing­ar fylgi regl­un­um bet­ur, seg­ir Elías Krist­inn Sæ­munds­son. Elías, sem er sjó­maður, hef­ur búið í Fær­eyj­um í fimm ár ásamt fær­eyskri konu sinni. „Þetta er svo lítið sam­fé­lag. Það treysta all­ir hver öðrum.“ 

Sól­rún hef­ur búið í Fær­eyj­um í sjö ár og starfar sem iðjuþjálfi á hjúkr­un­ar­heim­il­um í Klaks­vík, næst­stærsta bæ Fær­eyja. Sól­rún seg­ir að ótrú­lega vel hafi gengið að vernda viðkvæm­ustu hópa sam­fé­lags­ins. Þannig hafi ekk­ert smit komið upp meðal íbúa á hjúkr­un­ar­heim­il­um í eyj­un­um. „Nokkr­ir starfs­menn hafa smit­ast, en það hef­ur ekki náð að smita út frá sér til heim­il­is­fólks,“ seg­ir hún. Mikið hef­ur enda verið lagt upp úr sýna­tök­um, og á hjúkr­un­ar­heim­il­un­um þar sem hún starfar fóru flest­ir starfs­menn í sýna­töku í hverri viku þar til bólu­setn­ing­um lauk.

mbl.is/​Sig­urður Bogi
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert