Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag frumvarp um að gera höfuðborgina, Washington, að 51. ríki Bandaríkjanna. Frumvarpið, sem hefur áður verið samþykkt í fulltrúadeildinni, fer nú til öldungadeildarinnar en ólíklegt verður að teljast að það hljóti samþykki þar vegna svarinnar andstöðu repúblikana.
Atkvæði í fulltrúadeildinni féllu eftir flokkslínum. 216 demókratar greiddu atkvæði með frumvarpinu en 208 repúblikanar gegn.
Um 700 þúsund manns búa í Washington, fleiri en í ríkjunum Vermont og Wyoming og álíka margir og í Alaska. Þótt íbúar í Washington geti kosið í forsetakosningum hafa þeir ekki kosningarétt til þings. Hafa Sameinuðu þjóðirnar meðal annars gert athugasemd við það fyrirkomulag og sagt það brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum Bandaríkjanna.
Í borginni er yfirgnæfandi stuðningur við demókrata og hefur frambjóðandi flokksins hlotið meirihluta atkvæða í öllum kosningum frá árinu 1961 þegar íbúum borgarinnar var veittur kosningaréttur með stjórnarskrárbreytingu.
Skyldi því engan undra að demókratar séu áhugasamir um að veita íbúum kosningarétt til þings, en repúblikanar harðlega á móti. „Landsfeðurnir vildu aldrei að D.C. yrði ríki og settu það sérstaklega í stjórnarskrá,“ sagði repúblikaninn Jody Hice við atkvæðagreiðsluna.
Í stjórnarskránni er sérstaklega kveðið á um stofnun svæðis, ekki stærra en 100 fermílur, sem skuli ekki tilheyra neinu ríki Bandaríkjanna og þar skuli þing og ríkisstjórn landsins hafa aðsetur. Mörk svæðisins eru hins vegar ekki skilgreind sérstaklega í stjórnarskrá.
Með frumvarpinu, sem nú hefur verið samþykkt í fulltrúadeildinni, er mörkum þess breytt þannig að aðeins lítil landspilda, sem nær yfir Hvíta húsið, þinghúsið og National Mall-garðinn, skuli teljast til þessa svæðis, District of Columbia.
Borgin sjálf yrði hins vegar að nýju ríki, sem lagt hefur verið til að fái heitið Douglass Commonwealth til minningar um mannréttindafrömuðinn Frederick Douglass, sem barðist fyrir afnámi þrælahalds í landinu. Þannig yrði skammstöfuninni D.C. haldið og áfram yrði hægt að vísa til hvort heldur borgarinnar eða hins sérstaka svæðis sem Washington, D.C.