Ráðstefna Joes Bidens Bandaríkjaforseta um loftslagsmál hófst á hádegi í dag. Þar koma saman 40 þjóðarleiðtogar og ræða framtíð loftslagsvandans næstu árin. Biden opnaði fundinn og sagði að Bandaríkin myndu reyna að helminga losun gróðuhúsalofttegunda fyrir árið 2030. BBC lýsir fundinum í beinni.
Biden sagði einnig að næsti áratugur skipti sköpum í baráttunni við loftslagsvandann. Kostnaður við aðgerðaleysi í málaflokknum heldur áfram að aukast, að hans sögn, og Bandaríkin munu ekki lengur fresta því að grípa til aðgerða.
Næstur á eftir Biden tók Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, til máls og hældi Biden fyrir afdráttarlausa afstöðu til loftslagsvandans. Hann segir að heimsbyggðin öll standi á barmi glötunar og að leiðtogar allra ríkja verði að snúa bökum saman til að afstýra stórslysi.
Xi Jinping, forseti Kína, tók næstur til máls og sagði að ríki heimsins verði að einbeita sér að því að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna. Hann minnti á markmið Kínverja um að kolefnisjafna alla framleiðslu Kínverja, iðnað og efnahag, fyrir árið 2060.
Þá sagði Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, að loftslagsvandinn væri vandi sem milljónir um allan heim upplifi nú þegar og umhverfismál megi ekki gleymast þrátt fyrir að heimsbyggðin öll glími nú við heimsfaraldur kórónuveiru.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þakkaði Biden Bandaríkjaforseta fyrir að koma landinu aftur á braut þeirra ríkja sem leiða baráttuna gegn loftslagsvanda. Hann sagði að markmið Bandaríkjanna um helmingun losunar gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 breyti öllu. Hann segir að Bretland muni ráðast í sams konar aðgerðir.
Rússlandsforseti, Þýskalandskanslari, forsætisráðherrar Kanada, Japan og Bangladess hafa einnig lokið máli sínu á fundinum og hafa þau öll sömuleiðis rætt um mikilvægi algjörrar stefnubreytingar í loftslagsmálum.