Handtekinn fyrir að smita 22

Maðurinn smitaði með athæfi sínu 22 aðra þrátt fyrir augljós …
Maðurinn smitaði með athæfi sínu 22 aðra þrátt fyrir augljós einkenni um að hann sjálfur væri veikur. AFP

Karlmaður var nýlega handtekinn á spænsku eyjunni Mallorca vegna gruns um að hafa smitað 22 einstaklinga af Covid-19 með því að hafa verið í vinnu þrátt fyrir skýr einkenni um sjúkdóminn og að hann hafi verið beðinn um að fara heim.

Samkvæmt lögreglu á Mallorca var maðurinn handtekinn grunaður um líkamsárás með hátterni sínu. Nær rannsókn málsins aftur til janúar, en maðurinn var starfsmaður fyrirtækis í bænum Manacor þar sem hópsmit kom upp í kjölfar smita frá manninum.

Nokkrum dögum áður en hópsmitið uppgötvaðist mætti maðurinn til vinnu með skýr einkenni sjúkdómsins. Höfðu samstarfsmenn hans áhyggjur af því að hann væri veikur, en maðurinn neitaði að fara heim. Undir lok dagsins fór hann svo í PCR-próf, en beið ekki þangað til niðurstöðurnar lágu fyrir og mætti til vinnu daginn eftir, auk þess að fara í líkamsrækt.

Á vinnustaðnum gerðu bæði samstarfsmenn hans og yfirmaður athugasemdir við að hann væri þar veikur og báðu hann að fara heim, en maðurinn neitaði því. Varði hann deginum í að ganga um vinnustaðinn og taka niður grímu sína vísvitandi þegar hann hóstaði og kallaði á eftir samstarfsmönnum sínum „ég mun sýkja ykkur alla af kórónuveirunni,“ að því er fram kemur í upplýsingum frá lögreglunni.

Niðurstöður PCR-prófsins staðfestu svo að maðurinn var með veiruna og í kjölfarið voru fleiri samstarfsmenn hans prófaðir. Fimm þeirra reyndust smitaðir og í heildina var talið að vítavert gáleysi eða viljandi hegðun mannsins hafi valdið því að 22 sýktust, bæði tengt vinnunni og líkamsræktarstöðinni. Enginn þurfti þó að dvelja á sjúkrahúsi vegna smitanna. Er athæfi mannsins sem fyrr segir rannsakað sem líkamsárás.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka