Bresk stjórnvöld fara af stað með nýja herferð á morgun þar sem fólk undir fimmtugu er hvatt til að fara í bólusetningu gegn kórónuveirunni.
Herferðin mun ná til sjónvarps, útvarps, samfélagsmiðla og auglýsingaskilta þar sem fram kemur að „hver einasta bólusetning gefur okkur von“.
Sérstakt frímerki verður jafnframt gefið út í tilefni af herferðinni.
Stjórnvöld hafa smám saman verið að draga úr takmörkunum vegna kórónuveirunnar eftir að Bretar náðu markmiði sínu um að allir yfir fimmtugu væru búnir fá fyrsta skammt um miðjan apríl.
Næstum 34 milljónir manna, eða um tveir þriðjuhlutar fullorðinna í landinu, hafa fengið fyrri skammt bóluefnis. Vonir standa til að allir fullorðnir verði búnir að fá fyrri skammtinn í ágúst.
Alls hafa 4,4 milljónir manna greinst með kórónuveiruna í Bretlandi og tæplega 128 þúsund manns hafa látist. Talið er að bólusetningin í landinu, sem hefur gengið hratt og vel fyrir sig, hafi bjargað lífi yfir 10 þúsund manna í Bretlandi frá desember í fyrra þangað til í mars á þessu ári.
Samkvæmt nýlegri rannsókn þar í landi dró úr sýkingum um 65% í landinu eftir að fyrstu skammtarnir voru gefnir og hækkaði prósentutalan enn meira eftir að seinni skammtar voru gefnir.