Vilja að ölið flæði fram á rauða nótt

Skálað á Nýhöfn.
Skálað á Nýhöfn. AFP

Bar­ir og veit­inga­hús fengu að opna í Dan­mörku á miðviku­dag, í fyrsta sinn í tæpt hálft ár. Lands­menn biðu ekki boðanna og hafa síðustu daga flykkst út á lífið, en þó er ekki í boði að djamma fram á rauða nótt.

Staðir mega aðeins vera opn­ir til klukk­an 23, og eft­ir klukk­an 22 má ekk­ert áfengi selja. Stjórn­ar­and­stöðuflokk­ar á danska þing­inu vilja breyta þess­um regl­um.

Mette Abild­ga­ard, þingmaður Íhalds­flokks­ins, seg­ir í sam­tali við danska rík­is­út­varpið að þess­ar regl­ur komi í raun í veg fyr­ir að fólk geti haldið stærri veisl­ur á borð við brúðkaup, af­mæli eða út­skrift­ar­veisl­ur.

„Dan­ir hafa staðið sig til fyr­ir­mynd­ar. Við höf­um náð að hemja smit­in og þau eru mun færri en spár gerðu ráð fyr­ir. Lands­menn ættu að njóta góðs af því,“ seg­ir Abild­ga­ard. Í sama streng tek­ur hægri­flokk­ur­inn Ven­stre, stærsti stjórn­ar­and­stöðuflokk­ur­inn.

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins í Dan­mörku eru sama sinn­is og segja þau að með nú­gild­andi regl­um sé hætt við því að fólk yf­ir­gefi bar­ina ein­fald­lega klukk­an 23 og fari frek­ar í sam­kvæmi í heima­húsi – þar sem eng­in bönd halda því. Á bör­un­um er vel gætt að fjölda­tak­mörk­un­um og í þokka­bót kemst eng­inn inn nema geta sýnt nei­kvætt Covid-próf sem ekki er eldra en þriggja sól­ar­hringa.

Stjórn­völd hafa raun­ar reynt að sjá við heimapar­tí­um með því að banna alla sölu áfeng­is eft­ir klukk­an 22, einnig í versl­un­um. Ætli menn að halda gleðskapn­um áfram eft­ir að skellt er í lás í bæn­um verða þeir því að hafa und­ir­búið sig. Nokkuð sem Íslend­ing­ar þekkja vel, en Dan­ir síður.

Ekki út í blá­inn

Úr röðum stjórn­ar­flokks­ins, jafnaðarmanna, heyr­ast þær radd­ir að hægt sé að sýna til­lögu stjórn­ar­and­stöðunn­ar skiln­ing en mik­il­vægt sé að for­gangsraða aðgerðum þegar kem­ur að aflétt­ingu.

All­an Randrup Thomsen, smit­sjúk­dóma­lækn­ir við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla, seg­ir enn frem­ur að regl­urn­ar séu ekki sett­ar út í blá­inn.

„Það er sér­stak­lega seint á kvöld­in, þegar fólk hef­ur drukkið nokk­urt áfengi, sem það á erfitt með að fylgja fjar­lægðarregl­um og lík­ur á smit­dreif­ingu aukast. Hvaða áhrif það hefði ná­kvæm­lega á far­ald­ur­inn [að af­nema regl­una] get ég þó auðvitað ekk­ert sagt um,“ seg­ir hann.

Svipaðar regl­ur eru ein­mitt í gildi á Íslandi, en þó opið klukku­tíma skem­ur. Vín­veit­ingastaðir mega vera opn­ir til klukk­an 22, en þurfa að hætta að selja veig­ar klukk­an 21.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert