Hershöfðingjar valda usla með ummælum um borgarastríð

Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakklands, var ekki sátt við ummæli hershöfðingjanna …
Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakklands, var ekki sátt við ummæli hershöfðingjanna og þeirra sem skrifuðu undir bréfið. AFP

Ríkisstjórn Frakklands hefur hótað að refsa hermönnum sem skrifuðu undir opið bréf sem 25 fyrrverandi hershöfðingjar skrifuðu þar sem þeir vara Frakklandsforseta við því að borgarastyrjöld vofi yfir landinu. 

Fjölmargir starfandi hermenn eru sagðir hafa skrifað undir bréfið sem var birt í síðustu viku í hinu hægrisinnaða tímariti Valeurs Actuelles. Þar kemur fram að veikburða stefna stjórnvalda muni leiða til glundroða og því verði núverandi hermenn að takast á við hættulegt verkefni til að vernda samfélagsleg gildi Frakka. 

„Þetta eru alvarlegir tímar: Frakkland er í hættu,“ skrifuðu hershöfðingjarnir, sem bættu við að mistök stjórnvalda við að takast á við það sem þeir kalla „úthverfahjörðina“, sem er vísun í þá íbúa í frönskum borgum þar sem innflytjendur eru í meirihluta, sem og aðrir ónefndir hópar sem „hæðast að landinu okkar“, muni leiða til borgarastyrjaldar með þeim afleiðingum að þúsundir muni láta lífið.

Franskir hermenn við æfingar í heimalandinu.
Franskir hermenn við æfingar í heimalandinu. AFP

Ríkisstjórn Frakklands og flokkar á vinstri væng stjórnmálanna hafa fordæmt bréfið, sem var birt sama dag og þess var minnst að 60 ár voru liðin frá misheppnaðri valdaránstilraun hershöfðingja sem voru því mótfallnir að Frakkland myndi veita Alsír sjálfstæði. 

Ekki liggur fyrir með nákvæmum hætti hversu margir af þeim sem skrifuðu undir, fyrir utan hershöfðingjana sem eru sestir í helgan stein, eru enn við skyldustörf innan franska hersins. 

Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakklands, sagði í gær að þeim, sem eru sannarlega enn við skyldustörf, verði refsað, því lögum samkvæmt verða hermenn að sýna fram á pólitískt hlutleysi. 

Parly vildi þó ekki gefa ummælum þeirra of mikið vægi því hún sagði að yfirgnæfandi meirihluti franskra hermanna væri bæði hlutlaus og trygglyndur. 

Stjórnmálaskýrandinn Jean-Yves Camus gerði sömuleiðis lítið úr bréfinu, en hann segir í samtali við AFP að þarna væri ekki um neina þungavigtarmenn innan hersins að ræða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert