Bandarísk stjórnvöld eru með það til skoðunar að styðja afnám á einkaleyfum sem veitt hafa verið fyrir bóluefni gegn kórónuveirunni. Fréttaveitan AFP hefur þetta eftir háttsettum embættismanni úr bandarísku viðskiptastofnuninni.
Ngozi Okonjo-Iweala, nýskipaður framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, hefur gert bóluefnamál að forgangsmáli sínu og meðal annars lagt til að einkaleyfi lyfjarisa á framleiðslu bóluefna verði afnumið tímabundið.
Fulltrúar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) funda nú í Genf þar sem þessi tillaga er til umræðu, en með henni er talið að hraða mætti til muna bólusetningu í fátækari ríkjum heims. Í skýrslu bandarísku viðskiptastofnunarinnar segir að „mat á skilvirkni tillögunnar“ fari nú fram innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Suður-Afríka og Indland eru þau lönd sem leiða baráttuna fyrir því að tillagan verði samþykkt. Indland hefur á skömmum tíma orðið miðpunktur kórónuveirufaraldursins í heiminum og hafa nær 400.000 tilfelli veirunnar greinst á dag síðustu daga en óttast er að þau séu mun fleiri í raun.
Bandaríkin hafa þó ekki formlega lýst yfir stuðningi við tillöguna. „Helsta forgangsmál Bandaríkjanna er að bjarga lífum og binda enda á faraldurinn. Við vinnum með bandamönnum okkar til að leita raunsærra og áhrifaríkra leiða til að auka framleiðslu og bæta dreifingu bóluefna,“ hefur AFP eftir heimildarmönnum sínum.
Samtök atvinnulífsins í Bandaríkjunum (Chamber of Commerce) eru meðal þeirra sem leggjast gegn því að einkaleyfin verði afnumin, enda fæli það í sér tekjutap fyrir stórfyrirtæki á borð við Pfizer. Raunar halda samtökin því fram að einkaleyfin hafi ekki áhrif á framleiðslu bóluefna. „Það er misskilningur að einkaleyfi séu hingrun. Í raun hjálpa þau til við að nýsköpun með því að tryggja hvata til langtímafjárfestingar,“ segir í yfirlýsingu frá varaforseta samtakanna, Patrick Kilbride.