B.1.617 – tvöföld stökkbreyting

AFP

Yfirvöld á Indlandi segja að mögulega tengist nýtt afbrigði kórónuveirunnar þeirri Covid-bylgju sem geisar þar nú. Aldrei hafa jafn margir látist af völdum Covid-19 á Indlandi á einum sólarhring og í dag. Eins hafa ný staðfest smit aldrei verið fleiri.

Íþróttasalur sem hefur verið breytt í gjörgæsludeild.
Íþróttasalur sem hefur verið breytt í gjörgæsludeild. AFP

BBC greinir frá því að nýja afbrigðið sé tvöföld stökkbreytt útgáfa en það greindist fyrst á Indlandi í mars. Sýni af stökkbreyttu útgáfunni, sem nefnist B.1.617, hefur fundist í nokkrum ríkjum Indlands þar sem smit eru verulega mörg. 

AFP

Yfirmaður hjá Sóttvarnastofnun Indlands segir að ekki hafi enn tekist að sanna þetta að fullu en tvöföld stökkbreyting er þegar tvö stökkbreytt afbrigði koma saman í sömu veiru.

Indverska sóttvarnastofnunin (NCDC) segir að stökkbreytta afbrigðið, sem fyrst greindist í Bretlandi, B.1.1.7, sé allsráðandi í norðurhluta Indlands á meðan nýja stökkbreytta afbrigðið, B.1.617, sé ráðandi í Maharashtra, Karnataka og Gujarat.

Í dag var greint frá því að síðasta sólarhringinn hafi 3.980 látist úr Covid-19 á Indlandi sem þýðir að 230.168 eru látnir. Alls voru 412.262 ný staðfest smit þar í landi sem þýðir að smitin eru komin í 21,1 milljón frá því faraldurinn braust fyrst út. 

Margir sérfræðingar telja að vegna þess hversu fáir fara í skimun og takmarkaðrar skráningar á orsök andláta séu tölurnar miklu hærri en þetta. Þetta megi til að mynda sjá með álaginu hjá líkbrennslum. 

AFP

Þar sem smitum hefur fjölgað hratt frá því í lok mars eru sjúkrahús víða á heljarþröm. Skortur er á sjúkrarúmum, lyfjum og súrefni. 

Ríkisstjórn Narendra Modi forsætisráðherra hefur barist gegn því að setja á nýtt útgöngubann vegna þeirra alvarlegu efnahagslegu áhrifa sem það hefði, ekki síst á daglaunafólk. Samt sem áður hafa nokkur ríki þegar gripið til þess ráðs, þar á meðal höfuðborgin, Nýja-Delí, Bihar og Maharashtra. Hingað til hefur ástandið verið verst í Delí og Maharashtra en önnur ríki, svo sem Vestur-Bengal, Kerala og Karnataka hafa nú bæst í hópinn.

K. Vijay Raghavan, helsti ráðgjafi indversku ríkisstjórnarinnar í sóttvörnum, segir að landið verði að búa sig undir nýja bylgju smita sem muni skella á að lokinni þessari sem nú geisar. Þriðja bylgjan muni skella á en ómögulegt sé að segja nákvæmlega hvenær það verði. Þjóðin, sem telur 1,3 milljarða íbúa, verði að vera undir það búin.

AFP

Fjölmörg ríki hafa sent neyðaraðstoð til Indlands undanfarna daga en það dugir ekki til og ljóst að það er þörf á frekari hjálpargögnum næstu daga. „Við höfðum ekki og höfum ekki nóg af súrefni,“ segir K. Vijay Raghavan. „Ef við fáum meira súrefni þá getum við bjargað fleiri mannslífum.“

Í nótt létust 11 sjúklingar á sjúkrahúsi í borginni Chennai eftir að þrýstingur féll í súrefnisleiðslum samkvæmt frétt Times of India. Fjölmörg slík tilfelli hafa verið tilkynnt undanfarna daga á Indlandi. 

AFP

Rauði krossinn hvetur til sameiginlegra aðgerða á alþjóðavísu til að koma í veg fyrir mannlegan harmleik í löndum Suður-Asíu. Vísað er til stöðunnar í Nepal þar sem mörg sjúkrahús eru yfirfull vegna fjölgunar Covid-19-sjúklinga og ný smit eru 57 sinnum fleiri nú en fyrir mánuði. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert