Mæla gegn notkun AstraZeneca og Janssen

Sérfræðingahópur á vegum norskra stjórnvalda mælast gegn almennri notkun á …
Sérfræðingahópur á vegum norskra stjórnvalda mælast gegn almennri notkun á bóluefnum AstraZeneca og Janssen við Covid-19. AFP

Sérfræðinganefnd á vegum norskra yfirvalda, sem gert var að meta áhættuþætti við bóluefni AstraZeneca og Johnson & Johnson/Janssen, mælir gegn notkun beggja bóluefnanna. 

Áður hafði embætti landlæknis í Noregi lagt til að notkun AstraZeneca yrði hætt og að notkun bóluefnis Janssen yrði frestað þar til frekari rannsóknir á efninu lægju fyrir.

Stjórnvöld í Noregi frestuðu ákvörðun um slíkt en settu á laggirnar sérfræðihópinn, til að meta áhættu bóluefnanna. 

Ástæða tilmælanna eru afar sjaldgæfar en mjög alvarlegar aukaverkanir sem leitt geta til dauða. 

Vilja gera bóluefnin valkvæð

Mælist sérfræðinganefndin til að bólusetning með bóluefnum þessara tveggja framleiðenda verði gerð valkvæð til þess að ekki hægist um of á bólusetningum við Covid-19 í Noregi. 

Formaður sérfræðingahópsins, Lars Vorland, sagði nefndina ekki mæla með notkun bóluefnanna í bólusetningaráætlun landsins er hann skilaði inn skýrslu hópsins. 

Heilbrigðisráðherra Noregs, Bent Hoie, hefur enn ekki gert grein fyrir afstöðu stjórnvalda gagnvart notkun bóluefnanna. 

Af þeim 134 þúsund sem hafa verið bólusett með AstraZeneca í Noregi fram að miðjum mars hafa fimm tilfelli af alvarlegri segamyndun í áður heilsuhraustu fólki verið tilkynnt. Þar af létust þrír. Einn hefur látist úr heilablæðingu.

Norðmenn frestuðu notkun AstraZeneca-bóluefnisins hinn 11. mars síðastliðinn.

Áfram mæla Lyfjastofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, með notkun bóluefnanna með þeim rökum að kostir þeirra séu langtum meiri en áhættan sem fylgir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert