Niðurstöður rannsóknar benda til þess að skógi vaxið svæði á stærð við Frakkland hafi vaxið af náttúrunnar hendi á síðustu 20 árum. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.
Endurheimtir skógar geta mögulega drekkt í sig jafnvirði 5,9 gígatonna koltvísýrings – sem er meira en árleg losun Bandaríkjanna, samkvæmt náttúruverndarsamtökum.
Teymi undir forystu Alþjóðlega náttúruverndarsjóðnum (WWF) notaðist við gervihnattagögn til að byggja kort af endurnýjuðum skógum. Endurnýjun skóga felur í sér að náttúrulegt skóglendi er endurheimt með litlum sem engum inngripum.
Endurnýjunin getur átt sér stað með því að gera alls ekki neitt eða með því að gróðursetja innlend tré, halda búfénaði innan girðinga og fjarlægja ágengar plöntur.
William Baldwin-Cantello hjá WWF segir náttúrulega endurnýjun skóga oft vera „ódýrari, kolefnisríkari og betri fyrir líffræðilegan fjölbreytileika en gróðursettir skógar.“
Hann benti þó á að ekki væri hægt að taka endurnýjun sem sjálfsögðum hlut. „Til að forðast hættulegar loftslagsbreytingar verðum við bæði að stöðva skógareyðingu og endurheimta náttúrulega skóga,“ sagði Baldwin-Cantello og bætti við að skógar eyðist um milljón hektara á hverju ári sem er miklu meira en er endurnýjað.
„Til að skógar nýtist sem lausn við loftslagsbreytingum þurfum við að takast á við skógareyðingu, það þýðir að í Bretlandi þurfum við lög sem koma í veg fyrir að maturinn okkar valdi skógareyðingum erlendis,“ sagði Baldwin-Cantello.